DOW JONES: Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að hann hafi áhuga á að mynda fríverlsunarsamband við Bandaríkin og að Ísland myndi ekki njóta góðs af því að ganga í Evrópusambandið. Þetta kom fram í ræðu sem Geir hélt í sínum gamla háskóla, Johns Hopkins School of Advanced International Studies, sem hann sótti fyrir um 30 árum síðan.

Geir segir að myndun fríverslunarsambands hafi verið rædd við viðskiptasendiherra Bandaríkjanna, Susan Schwab. Geir gaf þó til kynna að óhagstætt stjórnmálaumhverfi gæti orðið til þess að ekki yrði af samningnum, en Demókrataflokkurinn, sem hefur verið að styrkjast í Bandaríkjunum, er yfirleitt á móti fríverslunarsamningum.

Á miðvikudaginn undirritaði Geir, ásamt Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra og Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna. Geir segist ekki telja að Ísland muni bíða efnahagslegan skaða af lokun herstöðvarinnar í Keflavík. Hann segir að mikill uppgangur og vöxtur sé í efnahag Íslands og ætti því að geta farið í gegn um slíkar breytingar án nokkurra vandræða.

Geir sagði að Ísland njóti nú góðs af viðskiptasamningum við Evrópusambandið, en að innganga í Evrópusambandið verði þjóðinni ekki til góða. Hann segir að Ísland búi yfir betri stjórnun náttúruauðlinda og að þjóðin muni missa sjávarauðlindir sínar við inngöngu. Hann segir einnig að nú standi efnahagur Íslands mun betur en efnahagur þjóða innan sambandssins.

Rice segir að lok kalda stríðsins hafi kallað á endurskoðun varnarsamstarfs þjóðanna. Hún segir að nýi varnarsamninginn muni ekki veikja varnir Íslands, heldur styrkja varnarsamstarf þjóðanna sem geri þeim kleift að takast betur á við þær ógnir sem gætu komið upp. Rice segist vonast til að getað heimsótt Ísland fljótlega. Geir sagðist vera mjög ánægður með samninginn og benti á að Bandaríkin og NATO-ríkin muni áfram hafa aðstöðu fyrir herafla á Íslandi gerist þess þörf. Hann benti einnig á að samningurinn heimili einnig samstarf í landamæravörslu, aðgerðum gegn hryðjuverkum og löggæslu.