Svo virðist sem áhugi á skuldabréfum íslensku bankanna hafi glæðst á ný eftir að greint var frá áformum um endurreisn  þeirra í síðustu viku. Þannig hafa bréf Glitnis farið upp í 20% af verðmæti bréfanna og eftir því sem komist verður næst hefur meira að segja komist smá hreyfing á bréf Landsbankans.

Þessi markaður er mjög lokaður og engar opinberar upplýsingar að hafa um hann. Fyrir skömmu greindi www.vb.is frá því að skuldabréf Kaupþings hefðu rokið upp seldust á 14 til 15% verðmæti eða 14 til 15 sent á dollar. Lengst af var varð bréfanna 3 til 4 sent á dollar en hefur hækkað upp í  7 til 8 sent þar til það fór að rjúka upp í núverandi verð. Það hefur haldist en bréf á Glitni hafa hins vegar hækkað upp í 20% af verðmæti þeirra eða 80% afföll. Hugsanlegt er að það tengist sögusögnum um að einn aðili hefði fyrir skömmu boðið fram mikið magn skuldabréfa á Glitni eða sem svarar 20% af heildarmagni skuldabréfanna. Þá var rætt um að viðkomandi vildi fá 25% af verðmæti bréfanna en engar upplýsingar eru um hvort þau hafi selst á því verði.

Það sem vekur hins vegar mesta athygli nú er að svo virðist sem hreyfing sé á skuldabréf Landsbankans en eftir að ljóst var að ekki fengist upp í forgangskröfur hefur engin áhugi verið á skuldabréfum bankans. Nú heyrast sögur af því að hægt sé að fá 2-3% af verðmæti þeirra.