Góð þátttaka var í ríkisbréfaútboði Lánamála ríkisins síðastliðinn föstudag og náði ríkissjóður þar hátt í 14 milljarða króna til fjármögnunar halla komandi missera.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en í útboðinu var boðið upp á verðtryggða ríkisbréfaflokkinn RIKS21 og svo einnig upp á nýjan tveggja ára óverðtryggðan ríkisbréfaflokk, RIKB12, sem er með lokagjalddaga 24. ágúst 2012.

Greining Íslandsbanka segir að áhugi fjárfesta á verðtryggða flokknum hafi reynst talsvert meiri í útboðinu síðastliðinn föstudag en í útboðum undanfarinna mánaða. Þannig bárust tilboð fyrir 10,6 milljarða króna að nafnverði í flokkinn og var tilboðum tekið fyrir 7,3 milljarða á ávöxtunarkröfunni 3,35%.

„Er niðurstöðukrafan þar með sú lægsta síðan flokkurinn var fyrst gefinn út, sem var í apríl á þessu ári, en hann er nú orðinn um 34 milljarðar króna að stærð,“ segir í Morgunkorni.

Þá kemur einnig fram að í útgáfuáætlun Lánamála hafi verið gert ráð fyrir að gefa út ríkisbréf fyrir um 50 milljarða króna í flokknum. Á því ríkissjóður eftir að gefa út bréf í flokknum fyrir um 16 milljarða og er ekki við öðru að búast en að það gangi eftir miðað við áhuga fjárfesta í útboðinu nú.

„Samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála áttu lífeyrissjóðir og verðbréfa- og fjárfestingasjóðir ríflega helming allra útistandandi bréfa í flokknum í júnílok og má ætla að slíkir fjárfestar hafi einnig verið fyrirferðamiklir nú,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir jafnframt í Morgunkorni:

Eins og áður er getið var boðið upp á nýjan óverðtryggðan tveggja ára flokk ríkisbréfa sem upphaflega hafði verið áætlað að hleypa af stokkunum á fyrri helmingi ársins. Síðar var ákveðið að fresta þeirri útgáfu og leggja meiri áhersla á að stækka RIKB11 til að mæta betur eftirspurn erlendra fjárfesta eftir ríkisbréfum með stuttan líftíma.

Áhugi fjárfesta á þessum nýja flokki reyndist töluverður og bárust alls tilboð í flokkinn að fjárhæð 7,2 milljarða króna að nafnverði. Ákveðið var að taka tilboðum fyrir 6,3 milljarða á ávöxtunarkröfunni 4,20% sem var lítillega undir 4,25% nafnvöxtum bréfsins.

Samkvæmt útgáfuáætlun fyrirhugar ríkissjóður að selja bréf í flokknum fyrir 30 milljarða króna á næstu mánuðum.