Tæplega 60 prósent landsmanna eru hlynnt því að Ísland taki upp aðildarviðræður við Evrópusambandið samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins.

Sama prósentutala vill taka upp evru á meðan rúmlega 50 prósent eru fylgjandi því að Ísland gangi í ESB.

Helsta breyting frá síðustu könnun í apríl er sú að mun fleiri eru nú fylgjandi aðildarviðræðum að sambandinu, að því er fram kemur á vefsíðu samtakanna.

Meirihluti hjá öllum flokkum

Athygli vekur að meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokkanna er hlynntur því að taka upp aðildarviðræður.

Í heildina eru 57,8 prósent fylgjandi viðræðum, en einungis 21,2 prósent andvígir. Kjósendur Samfylkingar og Frjálslyndra sýna mestan stuðning, en stuðningsmenn Framsóknarflokksins koma þar á eftir. Minnst fylgi er við aðildarviðræður hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna.