Kostnaður Actavis við að bjóða í Pliva nemur 25 milljónum evra (2,2 milljarðar króna) umfram hagnað af sölu á bréfum sínum í félaginu til Barr, að sögn greiningardeildar Glitnis. Eign Actavis í Pliva ásamt kaupréttarsamningum nam 20,8% hlutafjár.

?Að teknu tilliti til skatta leiðir þetta til þess að spá Greiningar um hagnað Actavis á þriðja ársfjórðungi lækkar úr 23,2 milljónum evra í 3,2 milljónir evra. Kostnaðurinn verður færður meðal fjármagnsliða og mun þetta ekki koma niður á markmiðum stjórnenda um tekjur og EBITDA á árinu," segir greiningardeildin.

?Óhætt er að segja að fjárhagsleg áhrif yfirtökutilraunar Actavis á Pliva séu mun neikvæðari en búast mátti við. Vonir stóðu til að Actavis myndi hagnast verulega á eignarhlut sínum í Pliva eftir því sem að Barr hækkaði tilboðsverð sitt.

Yfirtökuferlið var þó sérlega flókið og kostnaðarsamt og höfðu stjórnendur Actavis áður bent sérstaklega á það. Nægir þar að nefna ítarlega áreiðanleikakönnun, kostnað vegna bankatryggingar og umsóknarferli til samkeppnisyfirvalda í 14 löndum," segir greiningardeildin.

Hún segir að úr því sem komið var þótti stjórnendum Actavis betra að sætta sig við kostnaðinn og draga sig út úr yfirtökuferlinu en að yfirbjóða Barr enn einu sinni.

?Kostnaðurinn upp á 2,2 milljarða króna er ágætis áminning til fjárfesta að ekki er allt gull sem glóir þegar útrás og yfirtökur eru annars vegar. Jákvæðu fréttirnar að mati Greiningar eru þó að stjórnendur vissu hvenær hætta bar leiknum og að þetta áfall er hlutfallslega lítið miðað við stærð og umsvif Actavis, mælt í tekjum, framlegð, sjóðstreymi eða markaðsvirði. Þá er núverandi starfsemi félagsins og framtíðarsýn óskert," segir greiningardeildin.