Innlendir og erlendir kröfuhafar Byrs eru ekki sammála um hvað þeir eigi að gera við bankann, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.Innlendir kröfuhafar vilja selja hann, annaðhvort strax eða í kjölfar nauðasamninga gamla Byrs, en hinir erlendu vilja setja upp vettvang þar sem þeir geta selt kröfur sínar á bankann. Ágreiningur þeirra verður líkast til ekki leystur fyrr en eftir að ársreikningur Byrs verður birtur. Stefnt er að því að birta hann skömmu eftir páska.

Byr er fjórði stærsti banki landsins. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja að stóru bankarnir þrír og hinn nýendurreisti MP banki hafi allir áhuga á samruna við Byr.

Niðurstaða ESA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti tímabundið ríkisaðstoð til stuðnings við BYR í síðustu viku. Beðið hefur verið eftir niðurstöðu í því máli mánuðum saman svo að hægt verði að stíga næstu skref í átt að framtíðarskipulagi Byrs.

Niðurstaðan þýðir í raun að ESA samþykkir tímabundið að 900 milljóna króna eiginfjárframlag íslenska ríkisins til Byrs og samningur upp á 5 milljarða króna víkjandi lán til viðbótar stenst reglur stofnunarinnar um leyfilega ríkisaðstoð. ESA óskaði á móti eftir því að íslensk stjórnvöld myndu leggja fram, innan sex mánaða, áætlun um endurskipulagningu nýja Byrs eða slit félagsins. Þegar sú áætlun liggur fyrir mun ESA taka endanlega afstöðu til ríkisaðstoðarinnar.

Ríkið heldur á hlutafénu

Ríkið á að eiga 5,2% hlut í Byr samkvæmt samkomulagi um fjármögnun bankans frá því í október í fyrra. Fjármálaráðuneytinu var einnig falin varsla og umsjón 94,2% hlutar í Byr þar til að sá hluti selst eða nauðasamningar nást í gamla Byr sem fela í sér að kröfuhafar hans eignist hlutaféð.

Byr sparisjóður skuldaði öðrum fjármálafyrirtækjum samtals 63,5 milljarða króna fyrir bankahrun. Með samkomulaginu sem náðist við kröfuhafa bankans í október síðastliðnum samþykktu þeir að afskrifa rúmlega 2/3 hluta krafna sinna og breyta 17,2 milljörðum króna af þeim í nýtt hlutafé. Langstærstu kröfuhafar Byrs sparisjóðs voru Bayerische Landesbank (BayernLB) og austurríski bankinn Raiffeisen Zentralbank Österreich (RZB) með 17 milljarða króna kröfu hvor. Það er um helmingur allra krafna búið.