Innviðir eru samheiti sem gjarnan er notað yfir samgöngumannvirki, heilbrigðisstofnanir, skóla og aðrar stofnanir sem mynda umgjörð eða grunnstoðir samfélagsins. Þau eru venjulega fjármögnuð með sköttum og gjöldum og eru rekin af hinu opinbera, ríki eða sveitarfélögum.

Framlög til uppbyggingar og viðhalds þessara grunnstoða geta verið breytileg frá einum tíma til annars, oftar en ekki í samræmi við efnahagslegt árferði landsins og fjárlögum hverju sinni. Það þarf því ekki að koma á óvart að innviðir á Íslandi hafa að ýmsu leyti mátt láta á sjá á undanförnum áratug, einkum eftir að bankakreppan hóf innreið sína árið 2008 og verulega var dregið úr fjárlögum.

Í óútkominni skýrslu GAMMA segir að undanfarið hafi borið á auknum áhuga meðal einkaaðila á innviðafjárfestingum. Í samtali við Viðskiptablaðið gerir Stefán Friðriksson, lánastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum (NIB), nánar grein fyrir slíkum einkaframkvæmdum og fjárfestingu í innviðum.

„Í einföldu máli lýtur einkaframkvæmd að því að hið opinbera býður út tiltekna þjónustu í heild sinni, þannig að einkaaðila er falið að annast fjármögnun, hönnun, byggingu og rekstur hennar til langs tíma, oftast nær 20-25 ár. Einkaframkvæmd er afbrigði af verkefnafjármögnun (e. Project Finance) þar sem með einföldun má segja að verkefni sé ætlað að standa undir sér á þeim tíma sem tekur að greiða lánsfé til fulls jafnframt því að greiða hluthöfum arð. Stofnað er sérstakt félag utan um verkefnið, en eigendur slíkra félaga eru iðulega verktakafyrirtæki, fasteignafélög og langtímafjárfestar á borð við lífeyrissjóði. Hið opinbera greiðir jafnan fasta þóknun fyrir afnot þjónustunnar á samningstímanum og getur samið um að fá mannvirkið í hendurnar að honum loknum,“ segir Stefán.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .