Heildarviðskipti erlendra aðila með innlend verðbréf námu alls 6,746 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, segir greiningardeild Glitnis.

?Þetta er heldur minna en á sama tímabili síðasta árs og töluvert minna en á fyrsta fjórðungi þessa árs. Á fyrsta ársfjórðungi var mikið um viðskipti með skuldabréf og þá aðallega með bréf banka og sparisjóða. Þau viðskipti voru þó að miklum hluta komin til af sölu KB banka á skuldabréfum til fjármögnunar íbúðarveðlána til erlendra aðila í lok mars," segir greiningardeildin.

Hún segir mikinn samdráttur milli fjórðunga í nettó viðskiptum með skuldabréf en skuldabréfaviðskipti draga til sín mest fé frá erlendum fjárfestum, en nettó kaup voru alls 5,520 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi. Viðskipti með hlutabréf voru 422 milljónir króna nettó.

"Neikvæð umræða um fjármálakerfið á Íslandi í erlendum fjölmiðlum virðist hafa haft áhrif á fjárfestingar erlendra aðila á öðrum ársfjórðungi. Nettó viðskipti erlendra aðila með erlend verðbréf drógust saman um 38% frá sama tíma í fyrra. Það sem heldur erlendum fjárfestum við efnið er vaxtamunur,en hann nemur nú um 10% miðað við vexti þriggja mánaða ríkisbréfa á Evrusvæðinu en um 8% miðað við Bandaríkjadollar," segir greiningardeildin.

Aftur á móti hefur þróun gengis krónu á tímabilinu, að öllum líkindum, haft þau áhrif að erlendir fjárfesta innleysi eignir sínar í innlendum verðbréfum. ?Vísitalan hækkaði um tæp 11 prósentustig á öðrum ársfjórðungi," segir greiningardeildin.