Erlendir fjárfestar hafa sýnt stoðtækjaframleiðandanum Össuri meiri áhuga en innlendir. Þetta segir Jón Sigurðssonar forstjóri Össurar í spjalli við Viðskiptablaðið. Nýlega keypti danska eignarhaldsfélagið William Demant Holding 6,3% hlut í fyrirtækinu af Mallard Holding sem er að meirihluta í eigu Össurar Kristinssonar stofnanda fyrirtækisins.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun kemur fram að Jón sagði þennan mismunandi áhuga sjást nokkuð vel á því hversu mikið af eignarhaldinu er komið í eigu erlendra fjárfesta. "Félagið hefur setið eftir í hækkunum og þessir hlutir sem hafa verið að losna hafa allir meira og minna farið til erlendra aðila," sagði Jón. Hann sagði það í sjálfu sér ekkert verra að fyrirtækið fari í auknum mæli í eigu erlendra aðila. "Við tökum öllum þeim sem vilja fjárfesta í fyrirtækinu fagnandi."

Jón sagði þetta danska félag vera svipað fyrirtæki að því leyti að það er einnig í heilbrigðistækniiðnaði. "Þetta er fyrst og fremst heyrnartækjaframleiðandi. Þeir hafa fjárfest í talsvert af öðrum fyrirtækjum en Össur er fyrsta fyrirtækið sem er ekki í sama geira og þeir."