„Við byrjuðum á því að líta í kringum okkur haustið 2008, en því miður kom eitt stærsta hrun sögunnar og allt fraus. Þeir sem höfðu áhuga á að fjárfesta misstu lystina og við fundum hvernig áhuginn dvínaði frá mánuði til mánaðar. Áhugasamir fjárfestar í september höfðu misst áhugann í nóvember,“ segir Davíð og hlær þegar hann fjallar um upphaf leitar Unity Tehcnologies að fjárfestum.

„Sem betur fer eru mjög góðir fjárfestingasjóðir í Bandaríkjunum sem horfa langt fram í tímann. Þeir sáu það sem við sáum ekki, að snjallsímabyltingin yrði jafn stór eða stærri en tölvubyltingin 30 árum fyrr. Sjóðirnir töldu að þeir sem yrðu snemma á ferðinni ættu mikla vaxtarmöguleika.

Áhugi frá Bandaríkjunum fór vaxandi um vorið 2009. Ég ferðaðist mikið til þess að hitta fjárfesta. Það var síðan nánast fyrir tilviljun sem ég hitti konu að nafni Diane Greene, stofnanda VMWare, eins af stóru hugbúnaðarfyrirtækjunum. Hún stofnaði félagið með manninum sínum. Fyrirtækið óx, fór á markað og hafði um 7.000 starfsmenn. En eins og stundum kemur fyrir forstjóra þá var hún rekin.

Henni fannst Unity mjög spennandi og bauðst til þess að fjárfesta í fyrirtækinu. Við vildum einnig fá að alvöru áhættufjárfestingasjóð (e. venture capital). Greene kynnti fyrir okkur enn betri sjóði en við höfðum áður rætt við.“ Svo fór að Greene og sjóðurinn Sequoia Capital, einn sá rómaðasti í heimi, fjárfestu fyrir rúmlega 5 milljónir dala vorið 2009. Fjármunirnir voru lagðir inn á bankareikning og voru aldrei notaðir enda markmiðið að velta peningunum á undan rekstri.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er ítarlegt viðtal við Davíð Helgason. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.