Líkt og áður hefur komið fram hafa stjórnendur við Háskólinn á Bifröst ákveðið að bjóða til sölu stóran hluta af fasteignum sínum á skólasvæðinu auk reksturs Hótels Bifrastar. Salan er m.a. tilkomin vegna þeirrar fækkunar sem orðið hefur á staðnámi hjá Háskólanum og erþví ekki sama þörf og áður fyrir húsnæði á svæðinu. Auk þess hefur skólinn glímt við nokkur fjárhagsvandræði undanfarin ár og segir Vilhjálmur Egilsson, rektor háskólans, söluna skref í því að bæta fjárhagsstöðu hans og gæða svæðið lífi.

Áætlað verðmat 2.586 milljónir króna

Capacent hefur unnið verðmat sem nær til reksturs Hótels Bifrastar og þeirra eigna sem hótelið þarf að nýta til rekstursins. Allt verðmatið byggir á því að hótelið nýti svokallaða „grunninn“ til rekstursins en með því er átt við bygginguna að Hamragörðum 1, byggingarnar tvær að Sjónarhóli og byggingarnar fjórar sem hýsa nú veitingasal og gestamóttöku og alla lausafjármuni sem þarf til  reksturs hótelsins og hótelíbúða.

Fyrsta verðmatið gerir þannig einungis ráð fyrir að grunnurinn verði nýttur undir rekstur hótelsins en annað verðmatið gerir ráð fyrir að fasteignirnar Kot og/eða Garðar verði einnig nýttar. Áætlað verðmat þegar aðeins grunnurinn er nýttur er um 1.501 milljón króna. Ef við það er bætt fasteignunum Koti og Görðum er áætlað verðmat hins vegar 2.586 milljónir króna.

Að sögn Þrastar Sigurðssonar, ráðgjafa hjá Capacent sem kemur til með að hafa umsjón með sölunni, er mjög varlega farið í áætlunum fyrirtækisins og megi því gera ráð fyrir því að töluvert svigrúm sé til tekjuaukningar.

„Áætlanir byggja á upplýsingum um gjaldskrá hótelsins og nýtingu. Gera má ráð fyrir að nýting aukist við að hótelið verði uppfært úr 2 stjörnu hóteli í 3 stjörnu hótel innan skamms. Við það má einnig gera ráð fyrir að verð muni hækka. Í verðmatinu er eingöngu tekið tillit til áætlaðrar hækkunar í verði í hótelherbergjum og má því gera ráð fyrir því að svigrúm sé til tekjuaukningar af hótelíbúðunum. Verðmatið er byggt á því að meðalnýting verði frá 41-47% á hótelherbergjum en umtalsvert minni á hótelíbúðum, eða frá 8-23%,“ útskýrir Þröstur.

Meiri áhugi en búist hafði verið við

Þrátt fyrir að eignirnar hafi enn ekki verið formlega boðnar til sölu segist Þröstur nú þegar finna fyrir töluverðum áhuga. „Við höfðum hlerað nokkuð í kringum okkur en þrátt fyrir það átti ég ekki von á því að menn væru jafn áhugasamir og raun ber vitni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.