Ráðstefna um sáttamiðlun var haldin í vikunni í höfuðstöðvum Arion banka. Ráðstefnan var haldin í tilefni af 10 ára afmæli Sáttar – félagi sáttamiðlara á Íslandi. Á ráðstefnunni var m.a. rætt um kosti sáttamiðlunar og hvernig fyrirtæki geti nýtt sér kosti hennar við úrlausn ágreiningsefna.

Meðal fyrirlesara var Douglas Frenkel, prófessor við háskólann í Pennsylvaníu, sem ræddi um reynslu Bandaríkjanna af sáttamiðlun. Elmar Hallgríms Hallgrímsson, formaður Sáttar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi orðið þess áskynja að nokkur áhugi sé meðal fyrirtækja að kynnast þessari aðferðafræði nánar og hvernig nýta megi hana sem leið til að leysa úr ágreiningi innan og á milli fyrirtækja.