Örn Helgason, fasteignasali hjá Þingholti, segir að hann merki áhuga á kaupum á jörðinni Hvassahrauni hjá Íslendingum og erlendum aðilum.

Hvassahraun er í skýrslu Rögnunefndar nefnt sem ákjósanlegt flugvallarstæði. Jörðin hefur verið til sölu frá árinu 2006. Spurður hvaða verðhugmyndir eigendur Hvassahrauns hafi um eignina segir Örn að hópurinn sé stór og því séu uppi ólíkar hugmyndir um ásættanlegt söluverð. „Sem hæst, eitthvað í kringum tæpa tvo milljarða,“ segir hann.

Örn segist hafa veitt nokkrum aðilum upplýsingar um eignina undanfarið, en hann geti hins vegar ekki greint frá því hverjir þeir séu á þessu stigi. Athygli vekur að í auglýsingu frá fasteignasölunni er meðal annars að finna lýsingu á eigninni með kyrillísku letri.