Á síðastliðnum fimm árum höfum við tvisvar sinnum orðið vitni að því að áhugi á Íslandi rýkur upp tímabundið, ekki ósvipað því sem gerðist þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010. að sögn sérfræðings í stafrænni markaðssetningu.

Ástæður þessa aukna áhuga sumarið 2016 og aftur sumarið 2018 voru einfaldar; EM í knattspyrnu var haldið 2016 og HM tveimur árum síðar, mót þar sem Íslenska landsliðið sló í gegn með eftirminnilegum hætti.

Nú er það árangur Íslands vegna COVID-19 sem er í brennidepli að sögn Hreggviðs S. Magnússonar, leiðtoga í starfrænni markaðssetningu hjá Pipar\TBWA og The Engine.

„Við hjá The Engine og Pipar\TBWA höfum forritað og þróað risavaxið gagnalíkan sem hlotið hefur nafnið ODIIN og sækir gögn úr gagnabönkum á borð við Statista, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Eurostat, Hagstofu Íslands, Google og Facebook svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hreggviður.

„Við erum gagnadrifið fyrirtæki vegna þess að gögn skipta miklu máli við ákvörðunartöku í markaðssetningu fyrir fyrirtæki almennt. Það er síðan okkar hlutverk að finna söguna á bakvið tölurnar.“

Hreggviður segir félagið nú hafa undir höndum gögn frá Google sem sýni að áhugi fyrir Íslandi hafi tvöfaldast á stuttum tíma.

Google heimild-Ísland tengdir frasar á alheimsvísu yfir 5 ára tímabil
Google heimild-Ísland tengdir frasar á alheimsvísu yfir 5 ára tímabil
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þetta mælum við með því að skoða áhuga (e. Interest over time) á öllum frösum tengdum Ísland á alheimsvísu,“ segir Hreggviður.

„Áhugi á Íslandi minnkaði örlítið 2019 og í byrjun 2020 en svo verður viðsnúningur í mars eins og sjá má á meðfylgjandi gröfum. Þar má leiða líkur að því að heimurinn veiti því eftirtekt hversu vel okkur hefur tekist að ráða niðurlögum COVID-19. Hér má sjá sömu leit einskorðaða við styttra tímabil, síðustu 12 mánuði“

Google heimild-Ísland tengdir frasar á alheimsvísu yfir 12 mánaða tímabil
Google heimild-Ísland tengdir frasar á alheimsvísu yfir 12 mánaða tímabil
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hreggviður segir áhugavert að fylgjast með þessum málum á þessum áhugaverðu tímum.

„Viðbrögð okkar Íslendinga gagnvart COVID-19 hafa vakið heimsathygli. Þar með er landið allt í brennidepli og jákvæð umfjöllun allsráðandi. Þennan aukna áhuga á Íslandi verðum við að nýta með markvissum aðgerðum og koma því til skila að Ísland sé tilbúið að taka við ferðamönnum þegar ferðamenn treysta sér að koma til okkar. Og við þurfum að hamra járnið meðan það er heitt.“

Íslenskt sjónvarpsefni vinsæl leit

Þegar kafað er ofan í frekari gögn má sjá að COVID- og CORONA-tengdir frasar eru mjög fyrirferðamiklir í Bandaríkjunum, eðli málsins samkvæmt. Þá sé að sögn Hreggviðs gaman að sjá hversu mikið er leitað að „Valhalla Murders“ sem er vinsæl og vönduð íslensk þáttaröð, sem Íslendingar þekkja sem Brot.

Bretar leiti hins vegar mikið að Eurovision-tengdu efni og framlag okkar frá Daða virðist vera afar vinsæl leit.

„Að auki sjáum við gríðarlega aukningu á leitarfrasanum „Iceland Travel“. Svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Hreggviður.

„Travel Iceland“ tengdir frasar á alheimsvísu yfir 5 ára tímabil
„Travel Iceland“ tengdir frasar á alheimsvísu yfir 5 ára tímabil
© Aðsend mynd (AÐSEND)