Ljósleiðaravæðing höfuðborgarsvæðisins hefur vakið athygli utan landsteinanna og hefur Markaðurinn eftir Birgi Rafni Þráinssyni, framkvæmdastjóra Gagnaveitunnar, að það sé vegna þess að unnið hefur verið eftir plani sem gengur upp. Birgir Rafn hélt nýlega erindi á stærstu ráðstefnu heims um þessi málefni í Mílanó og á næstunni mun hann tala á ráðstefnu í Grikklandi.

Ísland er að sögn Birgis í fremstu röð evróskra þjóða í ljósleiðaravæðingu ásamt Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Kórea og Japan standa öðrum þjóðum framar í þessum efnum. Um 2/3 heimila í Reykjavík eru tengd netinu auk allra heimila á Akranesi, Seltjarnarnesi, Hellu og Hvolsvelli.

Hagnaður af starfsemi Gagnaveitunnar nam í fyrra 471 milljón króna en tekjur voru um 1 milljarður og jukust um fjórðung. Eignir félagsins nema um 10 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall um 28%. Langstærstur hluti skulda er við móðurfélagið, OR.