Eignarhald erlendra fjárfesta í krónueignum hefur breyst á síðustu 12 mánuðum. Þannig hefur áhugi þeirra á ríkisvíxlum farið minnkandi, að því er fram kemur í nýju sérriti Lánamála ríkisins.

Erlendir fjárfestar hafa síðustu 12 mánuði fært sig meira úr ríkisvíxlum yfir í meðallöng ríkisskuldabréf og einnig yfir í löng bréf. Þetta áhugaleysi á ríkisvíxlum hefur valdið minni útgáfu ríkisvíxla hjá Lánamálum. Eign erlendra aðila hefur jafnframt farið minnkandi í óverðtryggðum bréfum, á sama tíma og eign í verðtryggðum bréfum hefur aukist.

Fram kemur í sérritinu að ríkisverðbréfaeign erlendra fjárfesta hafi aukist úr 173 ma.kr. í 175,5 ma.kr. á síðustu 12 mánuðum og nemur nú um 22% af heildarnafnverði ríkisverðbréfa. Þá hefur eignarhald í íbúðabréfum minnkað um 12,5 ma.kr. og innlánum um 26,5 ma.kr.