Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það eina stærstu spurningu íslenskra stjórnmála hvernig peningamálastjórn landsins á að vera. Ekki sé hægt að víkja sér undan því að marka skýra stefnu í þeim efnum og það ætli hann ekki að gera.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segist Bjarni ekki ætla að hætta sem formaður heldur þvert á móti vinna „látlaust" að framgangi flokksins með öðrum flokksmönnum.

Spurning blaðamanns: Illugi Gunnarsson sagði á þingi 4. mars sl. að dagar sjálfstæðrar peningastefnu í landinu væru liðnir. Þetta voru stór orð hjá þingflokksformanninum þáverandi, einum af þínum nánustu samstarfsmönnum. Hvað finnst þér sjálfum?

„Ég held að við stöndum á þeim tímamótum að viðskiptalífið á Íslandi er uppgefið sem og launþegahreyfingin. Áhuginn, sem birtist í könnunum í fyrra á því að ganga í Evrópusambandið og taka upp annan gjaldmiðil, byggði á þessari stöðu og vantrúnni á því að við getum gert betur í peningamálastjórn þjóðarinnar. Nú hefur mjög dregið úr þessum áhuga en menn óttast enn sveiflur og ójafnvægi til lengri tíma litið. Seðlabankinn er að vinna að því þessa dagana að draga upp þær sviðsmyndir sem til greina koma.

Ég hef sett af stað vinnu í Sjálfstæðisflokknum við að skoða þessa sömu hluti því á næstu misserum þarf að  taka ákvörðun um hvert við eigum að stefna. Þetta er auðvitað ein stærsta pólitíska spurningin í íslenskum stjórnmálum og það er ekki hægt að víkja sér undan henni og það mun ég alls ekki gera. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið fórnirnar við það að ganga í Evrópusambandið vera of miklar og það hefur ekkert breyst.  Staða mála erlendis er líka þannig að það er ekki hægt að ana að neinu í þessum efnum. Á evrusvæðinu er til að mynda mikið efnahagslegt ójafnvægi og framtíðarhorfur að mörgu leyti óljósar.

Ég held hins vegar að það sé alveg ljóst að það sé ekki hægt að halda áfram með peningamálastjórnina eins og ekkert hafi í skorist. Það verður að breyta því sem breyta þarf og meta kosti og galla. Vextir í landinu hafa verið alltof háir og hamla framgangi atvinnulífsins á margvíslegan hátt. Gleymum því hins vegar ekki, að forsendur stöðugleika eru hinar sömu hér og í öðrum löndum. Þær eru jafnvægi í ríkisbúskapnum og trú á efnahagsstefnunni. Við eigum mikið verk fyrir höndum að ná jafnvægi að nýju og hvað efnahagsstefnuna varðar erum við eins og sakir standa með ríkisstjórn í landinu sem er að vega að undirstöðuatvinnuvegum í landinu, sjávarútvegi og orkuvinnslu.

Þetta er það síðasta sem við þurfum á að halda og er grafalvarlegt mál. Þvert á móti þarf að tryggja stoðir þessara atvinnuvega og til að mynda að koma uppbyggingu virkjana af stað. Fjölmörg iðnaðartækifæri bíða á hliðarlínunni. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að hlúa að þessari undirstöðu, verðmætasköpuninni. Því miður er ríkisstjórnin að höggva í þessar stoðir.

Góður maður sagði við mig um daginn að það væri blessun að hafa vinstristjórnina. Ég þurfti að fá nánari skýringar til að skilja hvað hann átti við en hann sagði áherslur ríkisstjórnarinnar draga fram í dagsljósið hve mikil afturhaldsöfl stjórnarflokkarnir gætu verið. Fólk vildi fá að halda áfram með líf sitt en stjórnin þvældist fyrir í hverju málinu á fætur öðru. Það bæri að þakka fyrir að þessu væri komið svona skýrt og afdráttarlaust til skila," segir Bjarni Benediktsson.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.