Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að lífeyrissjóðirnir útiloki ekki samstarf við norska fjárfestinn Endre Røsjø sem fundaði ásamt fleiri Norðmönnum með Hrafni og fulltrúum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Gildis - lífeyrissjóðs fyrir helgi.

Þar lýsti Røsjø yfir áhuga á að stofna sérstakan fjárfestingarsjóð hér á landi í samstarfi við lífeyrissjóðina. Hrafn segir að lífeyrissjóðirnir séu að skoða málið. Þeir og fulltrúar norska fjárfestisins hafi skipst á gögnum á mánudag en framhaldið sé óráðið. „Það er áhugi af beggja hálfu að kanna samstarf en þetta tekur allt sinn tíma," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Endre Røsjø neitaði að veita Viðskiptablaðinu viðtal.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur hann hins vegar í hyggju að leita samstarfs við fleiri norræna fagfjárfesta um stofnun sjóðsins, svo sem lífeyrissjóði á hinum Norðurlöndunum og fjárfestingarsjóði. Christian Dovland, fulltrúi norræna fjárfestingarbankans First Securities, var af þeim sökum einnig á fundinum fyrir helgi.

Hugmyndin er sú að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum sem þurfa á endurfjármögnun og endurskipulagningu að halda en ekki stendur til að fjárfesta í orku eða öðrum íslenskum náttúruauðlindum.

Ætluðu að gera reyfarakaup

Það var hinn norski, fyrrverandi seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, sem átti upphaflega frumkvæði að því að beina sjónum Røsjø að Íslandi og mögulegum fjárfestingarkostum hér. Það staðfestir Øygard í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að það hafi verið eitt af sínum forgangsverkefnum, þegar hann var seðlabankastjóri, að fá hingað langtímafjárfesta í stað þeirra útlendinga sem ættu krónueignir en gætu ekki losnað við þær vegna gjaldeyrishaftanna.

Til að ná því markmiði hafi hann fyrr á árinu rætt við fjölda erlendra fjárfesta, svo sem alþjóðlega fjárfestingarbanka og ýmiss konar fyrirtæki. Røsjø hafi verið í þeim hópi.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu komu erlendir fjárfestar í röðum hingað til lands vikurnar eftir bankahrunið í þeirri von að geta keypt eignir á brunaútsölu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir aðspurður að minna beri nú á þeim sem „héldu að þeir gætu gert reyfarakaup". Nú sé meira um fjárfesta sem líti til lengri tíma. Hann segir sjálfsagt að taka vel á móti slíkum aðilum.

Það sé jákvætt „ef einhverjir vilja taka stöðu með íslenska hagkerfinu og hafa trú á framtíð þess - að því tilskildu að það sé á eðlilegum viðskiptalegum forsendum," segir fjármálaráðherrann.

Nánari umfjöllun má finna í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .