Áhugi á hlutabréfum í GameStop er æði sem mun að lokum, líkt og þyrilsnældur (e. fidget spinner), ísfötuáskorunin og Pokémon Go, deyja út. Er það mat Rochelle Toplensky, greinarhöfundar WSJ, sem telur að einstaklingsfjárfestar muni að lokum fá leið á GameStop og athyglin þá beinast að einhverju öðru sem þeim muni þykja spennandi. Hún telur þó einstaklingsfjárfesta vera afl sem ekki megi vanmeta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hafa einstaklingsfjárfestar tekið ástfóstri við GameStop auk fleiri annarra félaga og hafa hlutabréf þessara félaga fengið viðurnefnið jarmhlutabréf (e. meme stocks). Þessi áhugi hefur keyrt hlutabréfaverð félaganna upp úr öllu valdi og til að mynda höfðu á tímabili bréf GameStop sautjánfaldast í verði miðað við gengi bréfa tölvuleikjaverslunarinnar um síðustu áramót. Þessi hækkun hefur þó gefið nokkuð eftir, en í dag nemur hækkunin frá áramótum 700%.

Greinarhöfundur segir að svo lengi sem hlutabréfamiðlunarforrit á borð við eToro bjóði upp á ókeypis þjónustu muni einstaklingsfjárfestar, sem hafa reglulega á þessu ári keyrt upp verð á hlutabréfum í ólíklegustu fyrirtækjum, vera afl innan markaðarins. Bendir hún á í því samhengi að ríflega 10 milljónir nýrra einstaklingshlutabréfareikninga hafi verið opnaðar á fyrri hluta þessa árs.

Hún bendir þó á að það þurfi þó ekki að þýða að allir einstaklingsfjárfestar séu á höttunum eftir því sama. Dvínandi áhugi á hlutabréfum GameStop undanfarið renni stoðum undir þá kenningu.