Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, bendir á að mikilvægt sé fyrir alla landsmenn að stöðugleiki haldist innan hagkerfisins og að öll óvissa sé slæm. Nú í aðdraganda kjaraviðræðna sem standa yfir hafi átt sér stað ákveðin óvissa, sem komi sér illa fyrir markaði því þá haldi aðilar að sér höndum varðandi fjárfestingar.

„Vátryggingarekstur er eins og áður sagði tvíþættur og þannig úr garði gerður að hann sveiflast í öfugum takti við hagsveifluna. Í niðursveiflu minnka umsvif í þjóðfélaginu, fyrirtækjum fækkar og einstaklingar mega við litlu, fólk fer varlega og keyrir minna, sem verður svo til þess að tjónum fækkar og afkoma af vátryggingastarfseminni batnar. Fólk dregur því saman seglin og í hruninu voru einhverjir sem drógu úr vernd sinni, þá sérstaklega í persónutryggingunum. En sem betur fer hefur einstaklingum sem fá sér slíkar tryggingar tekið að fjölga á ný. Á sama tíma minnkar ávöxtun á eignamörkuðum og afkoma af fjárfestingastarfsemi dregst saman. Þegar hagkerfið nær sér aftur á strik þá aukast umsvifin aftur, fyrirtækjum fjölgar og einkaneysla vex, akstur eykst og tjón aukast þar af leiðandi sömuleiðis með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á vátryggingareksturinn. Þá tekur eignamarkaður aftur við sér og afkoma af fjárfestingastarfseminni eykst á ný. Þannig eru þessir tveir rekstrarþættir ágætis mótvægi hver við annan og það er okkar að ná að halda utan um báða þættina.

En það sem við höfum lengi vel sagt í samhengi við vátryggingareksturinn, þá vorum við að reyna að ná utan um þróun sem átti sér stað mun hraðar en við bjuggumst við. Sama má segja um atvinnulífið, þar er hraðinn orðinn gífurlegur og kominn spenna á vinnumarkaðinn og þá gleyma menn stundum vissum öryggisþáttum og í asanum verða tjónin," segir hann.

„Það getur orkað tvímælis þegar fólk dregur úr vernd sinni því tryggingar eru bakhjarl sem þú vilt ekki vera án ef áfallið dynur yfir. Það er auðvitað misjafnt hversu vel fólk er statt fjárhagslega, sumir hafa borð fyrir báru á meðan aðrir mega við litlu og geta lent illa í því ef þeir draga mikið úr tryggingaverndinni. Af þessum sökum erum við meðal annars að vinna í því að höfða til ungs fólks með persónutryggingar. Því yngra sem fólk er því ódýrari eru persónutryggingar, sem sagt líf- og sjúkdómatryggingar, en mánaðarlegt iðgjald slíkra trygginga fyrir ungt fólk er svipuð upphæð og ein skyndibitamáltíð. Við þekkjum það hversu vel slíkar tryggingar geta komið sér ef fólk lendir í áfalli. Það er ekki bara mikið álag andlega að lenda í slysi eða greinast með sjúkdóm, heldur fylgja því oft fjárhagslegar kvaðir og þá kemur sér vel að vera búinn að huga að þessum málum.

Við finnum klárlega fyrir því að það hefur átt sér stað mikil vitundarvakning varðandi mikilvægi persónutrygginga undanfarin ár og við höfum lagt mikið á okkur til að upplýsa fólk um mikilvægi þessarar verndar. Það hefur verið svolítið algengt meðal Íslendinga að halda það að lífeyrisréttindi okkar sjái um þennan kostnað, en það er ekki endilega þannig. Það er ákveðið gap sem er þarna til staðar sem fólk þarf að huga að. Nágrannar okkar í Skandinavíu hafa verið mun duglegri en við að huga að þessum málum en við höfum bætt okkur mikið undanfarin ár. Nú höfum við hjá Sjóvá sett í loftið lausn sem gerir fólki kleift að fá vandaða ráðgjöf um leið og það kaupir persónutryggingar á netinu fyrir mjög hagstæð iðgjöld. Við höfum verið að auglýsa þetta mikið undanfarið og finnum fyrir mjög jákvæðum viðbrögðum," segir Hermann.

Áhyggjuefni hve langt er á milli aðila

Nú komst þú aðeins inn á kjaraviðræðurnar fyrr í viðtalinu. Hefur þú áhyggjur af stöðu mála í viðræðunum?

„Mér þykir staðan eins og hún er núna vera mikið áhyggjuefni. Mesta áhyggjuefnið þykir mér vera hversu gríðarlega langt er á milli aðila, þá sérstaklega þessara félaga sem nú eru að huga að verkföllum. Ég tel að þetta hafi fyrir töluverðu síðan haft smitandi áhrif inn á markaði. Það má segja að það kveði við nýjan tón og kröfur verkalýðsfélaganna eru langsóttari og erfiðari að uppfylla en oftast áður, sem veldur þessari fjarlægð milli aðila. Það er auðvitað áhersla og vilji allra í velmegunarsamfélagi eins og okkar að sjá til þess að lægstu laun séu mannsæmandi. Sú þróun hefur verið jákvæð og síðustu kjarasamningar hafa rammað þetta inn, þar sem þróun lægstu launa hefur verið umfram önnur laun, sem er gott.

En það má hins vegar ekki gleyma því að þjóðhagsleg þekking og ábyrgð þarf að vera til staðar. Afrakstur kjarasamninga kemur ekki af himnum ofan, það eru fyrirtækin í landinu sem þurfa að bera kostnaðinn," segir hann og bætir við:

„Mér þykir ákveðin synd að við höfum ekki enn farið þessa skandinavísku leið við gerð kjarasamninga, en löndin þar hafa náð þeim takti við kjarasamningsgerð að þær atvinnugreinar sem eru mest verðmætaskapandi í hverju samfélagi fyrir sig semja fyrst. Þar er því gefin ákveðin lína sem sýnir hvað sé til skiptanna og svo semja aðrir á svipuðum nótum. Aðalmálið í þessu snýst um kaupmátt og lífskjör, sem við þurfum að ná einhverri samstöðu um hver eru. Tölfræði sýnir það að jöfnuður er á fáum stöðum meiri en hér á Íslandi. Þessi tortryggnislega umræða er því ekki uppbyggileg og þarf að vera studd betri rökum en ég hef séð. Ég tel að við séum á góðri vegferð og að við höfum öll tæki og tól til þess að tryggja að svo verði áfram. Við verðum að standa vörð um okkar lífskjör og reyna að koma í veg fyrir að verðbólga og aðrir þættir eins og til dæmis vextir, fari á skrið."

Nánar er rætt við Hermann í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .