*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 20. maí 2019 10:01

Áhyggjur & aðgát

Fjölmiðlarýnir fjallar um áhyggjur af stöðu fjölmiðla vestanhafs, mikilvægi þess að þeir sýni aðgát og um fréttaflutning af kostnaði við hús íslenskunnar.

Andrés Magnússon
epa

Endur fyrir löngu tók sá, sem þetta ritar, þátt í stúdentapólitík, en þó að baráttan ætti auðvitað að snúast um að hafa betur í viðureigninni við vinstrimenn þeirra daga (allir auðvitað einstaklega borgaralegir í dag), þá var baráttan nú samt sem áður harðari við aðra hægrimenn, sem yðar einlægum og félögum hans þóttu allt of linir í afstöðu en verra var að sú fylking hafði einatt betur í átökunum. Sumir af félögum mínum höfðu af þessu ríkar áhyggjur, að við yrðum ætíð í minnihluta og spurðu til hvers þetta erfiði allt væri.

Þá kvaddi sér hljóðs einn af vorum vísari mönnum og sagði að við þyrftum engar áhyggjur að hafa: „Þeir útskrifast; við ekki!“

***

Fjölmiðlarýni datt þetta í hug þegar hann sá fyrrverandi kollega hafa ríkar áhyggjur af ástandinu vestanhafs, að þar væri blaðamennska að hruni komin og ekki síst vegna áhrifa Trumps Bandaríkjaforseta, hvort sem hann væri nú sökudólgurinn eða birtingarmynd þeirrar þróunar.

Appelsínuguli maðurinn í Hvíta húsinu er auðvitað eins og hann er, en líkt og margir aðrir lýðskrumarar á valdastólum, þá kvartar hann ekki aðeins undan fjölmiðlum, heldur sakar þá um að vera þjóðníðinga, svo sumir óttast að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk þurfi að óttast um öryggi sitt og framtíð.

Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af árásum valdhafa á fjölmiðla, sér í lagi ef því er fylgt eftir með regluverki, sem þjarmar að miðlunum (eða gerir þá háða hinu opinbera, Lilja!).

Á móti kemur að almenningur er sjaldnast mjög hluttekningarsamur þegar stjórnmálamenn kveinka sér undan fjölmiðlum. Einhver orðaði það sem svo að það væri eins og ef skipstjóri vældi undan því að ekki væri alltaf gott veður til sjós.

Tjáningarfrelsið og fjölmiðlar eru vel varðir vestanhafs og ef þeir standa sig í stykkinu, þá þurfa þeir ekki að óttast Trumpinn mjög. Hann situr aldrei lengur í Hvíta húsinu en til 2025, en fjölmiðlarnir verða áfram til.

***

Breska sjónvarpsstöðin ITV aflagði í gær sjónvarpsþátt Jeremy Kyle, sem svipaði nokkuð til þátta Jerry Springer, þar sem undirmálsfólk var leitt fram til þess að fljúgast á. Út spurðist að einn af gestum í óbirtum þætti hefði sálgað sér eftir að hafa verið niðurlægður í upptöku.

Í óskyldum fréttum frá Indónesíu kom fram að 16 ára stúlka, „áhrifavaldur“ á félagsmiðlum, hefði verið venju fremur hnuggin með lífið og leitað álits fylgjenda sinna, en um ⅔ þeirra töldu réttast að hún bindi enda á það. Sem hún svo gerði.

Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif og það á ekki síður við um félagsmiðlana, bæði gagnvart einstaklingum og múgnum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

***

Brynjólfur Þór Guðmundsson sagði frétt í Ríkisútvarpinu í liðinni viku, þar sem greint var frá því að kostnaður við Hús íslenskunnar (áður nefnt hús íslenskra fræða) yrði 6,2 milljarðar króna þegar upp væri staðið í samanburði við þá 3,2 milljarða, sem ráðgert var að framkvæmdin kostaði árið 2013. Nær helmingi meira en ráðgert var. Fín frétt um bruðl í opinberum rekstri og ánægjuleg tilbreyting að RÚV segi fréttir af sóun hins opinbera.

Eða hvað? Hér var nefnilega ekki rétt með farið. Hið rétta er að kostnaður við framkvæmdina nemur nú 4,5 milljörðum króna (um 120% af 3,75 milljarða kostnaðaráætlun). Það er meira en vera bæri í krónum talið, en þegar horft er til verðlagsbreytinga lætur nærri því að vera uppreiknað verð á kostnaðaráætlun, þegar breytingar á verkinu er teknar með í reikninginn.

Milljarðarnir 3,2 voru lægsta boð árið 2013, þegar byggingargeirinn átti frekar bágt, en síðan var verkið stöðvað eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við, þar sem tekjur ríkissjóðs höfðu minnkað, líkt og sagt var í fréttinni. Þar var hins vegar tilgreint að það væri vegna þess að einmitt sú ríkisstjórn hefði ákveðið að: „fallið var frá sérstöku veiðigjaldi sem átti að fjármagna framkvæmdina að hluta“, sem er frekar beygluð leið að staðreyndum málsins. Hið sérstaka veiðigjald Norrænu velferðarstjórnarinnar var frá öndverðu tímabundið og rann bara út.

Allt um það var frétt RÚV ekki rétt um meginefnið, því framkvæmdin, sem verið var að bjóða út nú kostar 4,5 milljarða en ekki 6,2. Þessir 6,2 milljarðar eru áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina alla, þegar húsið verður tekið í notkun, með innréttingum, tjörn og suðrænum aldingörðum allt í kring, ef marka má þrívíddarmyndir arkitektastofunnar.

***

Þetta var ekki nógu gott hjá RÚV, því fréttirnar verða að vera réttar. Ekki síst skiptir máli í svona fréttum af kostnaðaráætlunum og kostnaði þegar upp er staðið, að það sé allt rétt reiknað út.

Hitt er þó verra að Ríkisútvarpið fékk ekki af sér frekar en vant er að leiðrétta fréttina með leiðréttingu. Þess í stað var látið nægja að segja langa frétt daginn eftir, þar sem sagt var að 26% munur væri á áætlunum og það allt skýrt í löngu máli, en í blálokin var sagt frá mergi málsins í fréttinni daginn áður, en að breyttum breytanda væru tölurnar ekki samanburðarhæfar. Það var nú frekar aumt.

Svona mistök fjölmiðla skipta máli. Það sást best á því að fréttin hafði varla verið sögð þegar Dagur B. Eggertsson kom froðufellandi á Facebook og átaldi Sigmund Davíð harðlega fyrir að „lækka auðlindagjöld á útgerðina“ og falla frá alls konar uppbyggingaráformum fyrri ríkisstjórnar. Í því samhengi benti Dagur sérstaklega á Hús íslenskunnar. „Þetta voru ótrúlega dýr mistök. Í vikunni birtist ein afleiðing af þessum óskynsamlegu ákvörðunum – Hús íslenskunnar reynist þremur milljörðum dýrara en ef í það hefði verið ráðist árið 2013,“ sagði borgarstjóri frekar úrillur.

Fjölmiðlarýnir fær ekki séð að Dagur hafi dregið orð sín til baka, en hann gerði ekkert til þess að staðreyna tölurnar og hafði ekkert fyrir sér annað en þessa röngu frétt, en tugir manna deildu dellunni á Facebook.

Það má kannski gagnrýna Dag fyrir græskuleysi, pólitískt frumhlaup eða skeytingarleysi í meðferð talna um opinberar framkvæmdir, en sökin liggur vitaskuld hjá RÚV. Það er svona sem rangar fréttir geta orðið falsfréttir.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is