Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg búast fjárfestar við lélegum niðurstöðum ársreikninga fyrirtækja vestanhafs og hefur það talverð áhrif á markaði nú undir lok árs.

Þá heldur olíuverð áfram að lækka sem veldur lækkun stórra olíufélaga á borð við Exxon (sem lækkaði um 4% í dag) og Chevron (sem lækkaði um 3,8%).

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2%, Dow Jones um 0,7% og S&P 500 um 1,8% eftir að hafa þó lækkað um 3,3% fyrr í dag.

Bílaframleiðandinn General Motors lækkaði um 19% í dag, og þar með eyddist út öll hækkun félagsins í síðustu viku, eftir að Credit Suisse bankinn birti skýrslu þar sem þess er getið að hlutafé félagsins verði „núllað út“ í kjölfar neyðarláns bandarískra yfirvalda til félagsins. Þannig er talið að allir hluthafar félagsins missi hlut sinn í mögulegri þjóðnýtingu bílarisans.

Þá lækkaði Toyota í Bandaríkjunum um 6,2% eftir að hafa tilkynnt í dag að tap verði af rekstri félagsins í ár, í fyrsta sinn í 71 árs sögu félagsins.

Þá lækkaði olíuverð í dag um 6% en undir lok dags kostaði tunnan af hráolíu 39,9 Bandaríkjadali á mörkuðum á Wall Street. Þannig hefur olíuverð lækkað um tæp 70% frá því að það náði hámarki í sumar.

Gull hækkar hins vegar í verði og kostar únsan af gulli nú 847,20 dali og hefur því hækkað um 1% í dag.