Öldungardeildarþingmaðurinn John McCain virtist ekki hafa verið með á nótunum þegar fyrrum yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar James Comey kom fyrir nefnd bandaríska þingsins í gær. Þar var Comey spurður út í samskipti sín við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Sagðist McCain eiga erfitt með að átta sig á því hvers vegna Comey hafi hætt rannsókn á tölvupóstmálum Hillary Clinton á sama tíma og rannsókn hafi átt sér stað á meintum tengslum Trump við stjórnvöld í Rússlandi.

Benti Comey þingmanninum á að málin tengdust ekki á nokkurn hátt.

Fóru af stað líflegar umræður á samfélagsmiðlum um heilsufar McCain og fóru af stað vangaveltur um hvort þingmaðurinn væri farinn að hrjást af elliglöpum en McCain verður 81 árs gamall seinna á árinu.

Svaraði McCain í yfirlýsingu sem hann gaf frá sér að hann hafi verið á fótum langt fram á nótt að fylgjast með liði sínu Arizona Diamondbacks í bandaríska hafnaboltanum. Leikurinn hafi ekki endað fyrr en klukkan hálf tvö eftir miðnætti að staðartíma í Washington og bætti við að liðið hans hefði unnið leikinn.