Ráðamenn bandaríska seðlabankans segja að leiðrétting húsnæðismarkaðar Bandaríkjanna sé nú hafin, en hafi þó enn ekki haft áhrif á efnahag landsins, segir í frétt Financial Times.

Ben Bernanke, forstjóri bankans og Don Kohn, varaformaður hans, sögðu báðir að erfitt væri að spá fyrir um hvaða áhrif hæging á húsnæðismarkaði muni hafa á hagvöxt og neyslu í Bandaríkjunum. Þeir benda á að bygging nýs húsnæðis hafi þegar minnkað snarlega og gæti það haft áhrif á aðrar hliðar efnahagsins á næstu mánuðum.

Báðir bentu þeir á að aðrar framkvæmdir myndu vega minnkunina upp í bili, en ítrekuðu að verðbólgan væri enn yfirvofandi. Bernanke segir að hann væntist þess að verðbólgan minnki á næstunni, en bankinn þurfi að fylgjast vel með til að sjá til þess að hún hækki ekki. Kohn segir að verðbólgan sé meira áhyggjuefni en hægingin á húsnæðismarkaði. Yfirlýsingar Bernanke og Kohn þykja benda sterklega til þess að bankinn muni ekki lækka stýrivexti á næstunni, líklegra er talið að vextirnir verði óbreyttir um nokkurn tíma á meðan staða efnahags og hagvaxtar er metinn.

Bernanke segir að fækkun nýbygginga í Bandaríkjunum muni minnka hagvöxt í Bandaríkjunum um eitt prósentustig á síðari hluta ársins og einnig að einhverju leyti á næsta ári. Hann segir að aðrar framkvæmdir væru enn tiltölulega sterkar.

Bernanke segir að aðalspurningin nú sé hversu langt leiðrétting húsnæðismarkaðarins gengur og í hvaða mæli það muni hafa á aðrar hliðar efnahagsins. Hann segir að mjög erfitt sé að spá fyrir um málið þar sem væntanlegir kaupendur munu sitja á sér, þar sem verðlækkanir séu yfirvofandi. Bernanke bætti þó við að minnkandi atvinnuleysi, hærri tekjur og auknir landsflutningar muni einnig hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn.

Kohn segir að hægingin á húsnæðismarkaðnum muni koma á jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Hann segir að áhrif hægingarnar gætu verið skammvin og að efnahagur Bandaríkjanna stefni í mjúka lendingu.