Evrópudeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) telur að einn helsti vandi Evrópuþjóðanna við endurreisn sé sú erfiða staða sem lítil og meðalstór fyrirtæki á svæðinu séu í. Þetta kom fram á fundi Evrópudeildar AGS með blaðamönnum á síðasta degi ársfundar AGS um miðjan mánuðinn.

Atvinnuleysi í mörgum Evrópulöndum hefur náð methæðum, einna helst meðal ungs fólks en Reza Moghadam, framkvæmdastjóri Evrópudeildar AGS, telur að sökum erfiðleika lítilla og meðalstærri fyrirtækja við að ná sér á skrið takmarki það mjög möguleika þessara fyrirtækja til að ráða til sín fólk. Á bilinu 60-80% vinnuafls á evrusvæðinu starfa hjá fyrirtækjum með færri en 250 manns í vinnu, eða svokölluðum litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Há vaxtakjör samhliða takmörkuðum hagvexti AGS bendir á að svo virðist sem neikvætt samband sé á milli þeirra Vaxtakjara sem litlum og meðalstórum fyrirtækjum býðst og framleiðsluslaka, þ.e. frávikum frá mögulegum hagvexti hagkerfisins, í viðkomandi löndum. Með öðrum orðum, í löndum þar sem er hve mest þörf til að auka hagvöxt er vaxtastigið alltof hátt.

Að mati AGS er þetta slæm þróun þar sem ljóst sé að þau lönd sem ekki hefur tekist að vaxa nægilega mikið frá því að fjármálakreppan skall á þyrftu einmitt að geta boðið lægri vexti. Þetta sé einn helsti þátturinn sem heldur aftur af vexti á evrusvæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .