*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 16. febrúar 2020 17:01

Áhyggjur af litlu gegnsæi hjá Alvogen

Alvogen hyggst þrefalda umsvif sín í Bandaríkjunum á næstu þremur árum. Moody's hefur áhyggjur af takmörkuðu gegnsæi innan samstæðunnar.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Í nýlegu lánshæfismati Moody‘s á starfsemi Alovgen í Bandaríkjunum er nefnt takmarkað gegnsæi sé innan samstæðu Alvogen og erfitt sé að átta sig á þeim hluta samstæðunnar sem sé utan Bandaríkjanna. Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, segir að frá upphafi hafi verið ákveðið að reka Alvogen í þremur einingum. „Það var gert af ásettu ráði frá byrjun. Við ætluðum frá upphafi að hafa starfsemina í Bandaríkjunum, Austur-Evrópu og Asíu aðskilda frá hvert öðru og hafa ólíkt viðskiptalíkan á hverjum stað því markaðirnir eru ólíkir,“ segir Árni.

Sala fjármagni frekari vöxt

Lánshæfismat Moody's hafi einungis snúið að starfseminni í Bandaríkjunum. Starfsemin í Asíu sé skráð á hlutabréfamarkað í Tævan. Alvogen seldi nýlega starfsemi félagsins í Austur-Evrópu til tékkneska lyfjafyrirtækisins Zentiva Group. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Reuters taldi sig hafa heimildir fyrir því árið 2018 að stefnt væri að því að fá allt að milljarð dollara, um 120 milljarða króna, fyrir félagið. Árni segir að aðgreiningin Alvogen í þrjá hluta hafi gert Alvogen mögulegt að selja starfsemina í Austur-Evrópu án þess að þurfa að gera verulegar breytingar innan samstæðunnar.

Þá eigi að nýta eigi söluandvirðið til að undirbyggja frekari vöxt. „Við ætlum að nota kaupverðið til að styrkja starfsemi félagsins í Bandaríkjunum og Asíu. Það er stefnt að því að þrefalda umsvifin í Bandaríkjunum á næstu þremur árum og það er stefnt á 60% vöxt á þessu ári í Asíu,“ segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér