Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka hefur áhyggjur af því ef sérstakt umhverfi verði sett á Íslandi varðandi bankastarfssemi. Kom þetta fram á fundi vegna uppgjörs bankans, þegar hann var spurður út í vinnu starfshóps fjármálaráðherra sem falið var að yfirfara lög um fjármálafyrirtæki.

Hópurinn, sem átti upphaflega að skila tillögum sínum fyrir 1. september, óskaði eftir frekari fresti, en hann átti að yfirfara lög um fjármálafyrirtæki í því skyni að setja frekari hömlur á fjárfestingarstarfssemi stærri banka.

Framlenging bankaskatts rýrir tiltrú

Höskuldur segir að framlenging sérstaks bankaskatts, sem upphaflega hafi einungis átt að standa í fjögur ár, rýri tiltrú á umhverfi fjármálafyrirtækja á Íslandi. Arion banki hafi þurft að greiða háar upphæðir í skatta sem ekki séu innheimtir í öðrum löndum.

Þótt kostnaður hafi aukist hjá bankanum á milli ára, segir hann laun á hvern starfsmann vera í samræmi við launavísitölu. „Við erum að fjölga starfsfólki,“ segir Höskuldur og vísar í nýtt útibú bankans sem opið er allan sólahringinn á Keflavíkurflugvelli.

Á síðustu sex árum hefur bankinn hins vegar lokað fimmtán útibúum.

Ekki markmið að halda í hlutabréf

Höskuldur lagði áherslu á að bankinn þyrfti að auka þóknanatekjur, en mikill munur á þessum tekjum milli ára skýrist af því að á þessu ári hafi bankinn ekki skráð neitt félag á markað, en þau voru tvö í fyrra.

Spurður að því hvort bankinn hyggist selja hluti sína úr fyrirtækjum eins og Símanum, þar sem bankinn á um 6%, Reiti þar sem bankinn á um 7% og Granda þar sem bankinn á um 5% játar hann því og segir að bankinn sé að selja hlutina smátt og smátt út á markaðinn. „Það er ekki markmiðið að halda í þessa hluti,“ segir Höskuldur.