Þrautalánaþjónusta og önnur fjármálaaðstoð sem seðlabankar veita fjármálafyrirtækjum ætti að vera samræmd þvert á landamæri.

Þetta er álit Jean-Pierres Roth, yfirmanns svissneska seðlabankans, en í viðtali við breska blaðið Financial Times á dögunum komu fram áhyggjur hans af stöðu einstakra seðlabanka gagnvart stórum fjármálafyrirtækjum.

Ummæli  Jean-Pierres Roth eiga vissulega erindi inn í þá umræðu sem átt hefur sér stað hér á landi um stærð fjármálafyrirtækja og þeirra skuldbindinga sem þau hafa tekið á sig erlendis annars vegar og svo hins vegar hlutverk ríkisvaldsins – það er að segja skattgreiðenda - sem þrautalánveitanda bankanna.

Sagt er í Financial Times að ummæli Roths endurspegli almennar áhyggjur meðal seðlabankamanna af því hvaða afleiðingar ólíkar starfsaðferðir þeirra kunna að hafa en í viðtalinu segir hann að samþætting fjármálakerfa geri það að verkum að möguleiki sé á því að stórir bankar leiti út fyrir heimalönd sín eftir aðstoð, lendi þeir í vanda.

Hann segir til að mynda í viðtalinu að það yrði mjög viðkvæmt mál ef svissneskur banki, sem þyrfti að fá meiriháttar aðstoð, leitaði eftir henni annars staðar en hjá seðlabanka landsins.

Segja má að aðstæður í Sviss séu ekki svo ólíkar þeim sem hafa komið upp á Íslandi, þó svo að vandi bankanna í síðarnefnda landinu stafi af öðru en í því fyrrnefnda. Fjármálakerfi landsins er afar stórt miðað við aðra geira.

Jafnframt hafa meiriháttar svissneskir bankar lent í djúpstæðum vanda vegna hrunsins á markaðnum með undirmálslán og hafa þeir þurft að afskrifa miklar fjárhæðir. Af þessum ástæðum hefur sprottið býsna lífleg umræða um fjármálakerfið í hinu landlukta Alparíki.

Alþjóðleg fyrirtæki kalla á alþjóðlegar lausnir

Roth bendir á hættuna sem getur verið fólgin í því að fjármálafyrirtæki leiti uppi þau hagkerfi sem hafa léttvægustu reglurnar og staðsetji höfuðstöðvar sínar þar.

Hann segir að stjórnvöld þurfi að íhuga reglurnar um þær tryggingar sem krafist er gegn því að seðlabankar láni fjármálastofnunum fé og nefnir það sem svið sem meiri samræmingar væri þörf á.

Í viðtalinu kemur fram að Roth telur að það eigi að vera ákvörðun reglusmiða í hverju landi fyrir sig hversu mikið frelsi þeir veita fjármálastofnunum.

Hins vegar nefnir hann að huga þurfi að því hversu samofnir fjármálamarkaðir séu og að tilvist alþjóðlegra fjármálafyrirtækja skapi sameiginleg úrlausnarefni. Hann segir að sameiginlegar aðgerðir seðlabanka beggja vegna Atlantshafs til þess að auka aðgengi fjármálafyrirtækja að Bandaríkjadölum sé gott dæmi um hvernig slík samhæfing geti skilað árangri.

Svissneskir bankar bjarga sér sjálfir

Eins og fyrr segir eiga helstu bankar Sviss í töluverðum vanda um þessar mundir – þeir eru í raun og veru meðal þeirra banka sem lánsfjárkreppan hefur bitnað hvað mest á – en þrátt fyrir það ber Roth traust til þeirra.

Hann bendir á að yfirvöld hafi ekki þurft að koma þeim til bjargar. Vandinn sé vissulega enn til staðar en hins vegar segir hann fjármálageira landsins vera nægilega sterkan til þess að bjarga sér sjálfur.