Væntanlegur samruni bandarísku símarisanna AT&T og BellSouth hefur valdið neytendasamtökum talsverðum áhyggjum, segir greiningardeild Landsbankans.

Þau telja hann muni valda fjöldauppsögnum sem og enn meiri samþjöppun á fjarskiptamarkaði.

Iðulega kemur til uppsagna þegar samrunar á borð við þennan ná að ganga í gegn. Þannig misstu 7.000 manns vinnuna í kjölfar samruna Cingular Wireless og AT&T Wireless í lok árs 2004, segir greiningardeildin.

Fyrir 24 árum var AT&T skipt niður í sjö sjálfstæðar einingar til að stuðla að aukinni samkeppni en síðan þá hefur AT&T tekist að sameinast nokkrum þeirra á ný.

Nýjasta útspil þeirra er fyrirhugaður samruni við BellSouth en þó er eftir að fá samþykki frá bæði samkeppnisyfirvöldum og sambandsnefnd samskiptamála.

Talið er að málið vekji ekki síðri athygli þar en hjá neytendasamtökum auk þess sem málið verði tekið fyrir á þingi á næstunni.

Samkvæmt talsmönnum AT&T mun samruninn koma til með að spara fyrirtækinu 2 ma.USD árlega verði hann leyfður, þá aðallega vegna fækkunar starfsfólks og samlegðaráhrifa.

Bréf í AT&T hafa hækkað talsvert í kjölfar tilkynningar þeirra í gær, segir greiningardeild Landsbankans.