Hagfræðingar hafa breytt stýrivaxtahorfum sínum fyrir Englandsbanka og Seðlabanka Evrópu. Fyrir aðeins nokkrum vikum var það samdóma álit manna að óbreyttir vextir á Bretlandi og evrusvæðinu yrðu aðeins tímabundnir áður en vaxtahækkunarferli bankanna yrði haldið áfram á ný. Ummæli seðlabankastjóranna um raunverulega verðbólguhættu renndu enn frekari stoðun undir það viðhorf. En vaxandi áhyggjur af því hvaða áhrif undirmálslánakrísan vestanhafs muni hafa fyrir hagvaxtarhorfur í Evrópu hefur hins vegar breytt því mati.

Seðlabankastjórar Englandsbanka og evrópska seðlabankans gætu fylgt í fótspor Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og breytt peningamálastefnu sinni; frá því meginmarkmiði að halda verðbólgu í skefjum og yfir í það að ýta fremur undir hagvöxt. Væntingar markaðsaðila hafa af þessum sökum tekið breytingum og nú er talið líklegt að Mervyn King, seðlabankastjóri Englandsbanka, og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri í Evrópu, muni ekki ráðast í frekari stýrivaxtahækkanir á næstunni. Hagfræðingar Deutsche Bank hafa breytt fyrri spá sinni um stýrivaxtahorfur á evrusvæðinu og segjast nú gera ráð fyrir því að vextir verði lækkaðir um 50 punkta á fyrstu sex mánuðum næsta árs. Þýski bankinn er síðasti bankinn í röð fjármálafyrirtækja sem hafa endurskoðað stýrivaxtaspá sína fyrir Seðlabanka Evrópu. Royal Bank of Scotland og Bear Stearns spá því einnig að vextir muni lækka á fyrri helmingi ársins 2008 á evrusvæðinu.

Vaxtalækkun kyndir undir verðbólguvæntingar
Það er hins vegar nánast útilokað að bankarnir ráðist í stýrivaxtalækkun á fimmtudaginn - þegar seðlabankarnir munu tilkynna um vaxtaákvörðun sína - en flestir greiningaraðilar eiga von á því að vöxtum verði haldið óbreyttum. Samkvæmt skoðanakönnun sem Bloomberg-fréttaveitan gerði á meðal 55 hagfræðinga spá því allir nema einn að vextir verði áfram 4% á evrusvæðinu. Vandræði breska bankans Northern Rock og vísbendingar um lækkandi húsnæðisverð þar í landi munu jafnframt gera það að verkum að Englandsbanki viðheldur mjög sennilega stýrivöxtum óbreyttum í 5,75%.

Þrátt fyrir að flestir hagfræðingar spái ekki vaxtalækkunum fyrr en á næsta ári þá eiga sumir þeirra von á því að King og Trichet noti tækifærið á fimmtudaginn til að lýsa yfir áhyggjum af samdrætti í efnahagslífinu: Húsnæðisverð í London hefur meðal annars ekki lækkað meira á milli mánaða í þrjú ár, á meðan að evran hefur aldrei verið hærri gagnvart Bandaríkjadal, sem aftur mun koma niður á hagnaði evrópskra útflutningsfyrirtækja sem reiða sig í miklu mæli á Bandaríkjamarkað fyrir vörur sínar. Total, franska olíufyrirtækið, hefur reiknað það út að fyrir hver 10 sent sem dalurinn lækkar gagnvart evrunni minnki tekjur félagsins um 1,1 milljarð evra.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.