Bandaríski hagfræðiprófessorinn Arthur Laffer segir að hvorki Íslendingar né Bandaríkjamenn þurfi að hafa áhyggjur af viðskiptahalla landanna. Viðskiptahallinn sé til marks um að fjármagn leiti inn í löndin vegna þess að viðskiptaumhverfi sé hagstætt til fjárfestinga. Þetta kom fram í máli Laffers, sem flutti erindi í Þjóðmenningarhúsinu í gær þar sem hann fjallaði um kosti þess að lækka skatta.

Þekktur fyrir Laffer-bogann

Laffer, sem er þekktur fyrir Laffer-bogann svonefnda (e. Laffer-curve) sem fjallað er um í helgarblaði Viðskiptablaðsins, var ráðgjafi Ronalds Reagans forseta Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Laffer rakti í erindi sínu sögu Bandaríkjanna á 20. öld með tilliti til skattabreytinga og annarra aðgerða ríkisvaldsins sem hafa áhrif á efnahagslífið. Hann lýsti því hvernig lagasetning sem var íþyngjandi fyrir atvinnulífið hafi komið Kreppunni miklu af stað árið 1929 og hvernig henni hafi verið haldið við og hún dýpkuð með skattahækkunum.

Kennedy, Reagan og Clinton

Hann nefndi sérstaklega þrjá forseta Bandaríkjanna sem hefðu staðið sig vel í því að bæta efnahagsumhverfið. Sá fyrsti hafi verið John F. Kennedy, sem hafi á 7. áratugnum lækkað skatta umtalsvert, meðal annars hæsta þrep tekjuskatts einstaklinga úr yfir 90% í 70%. Þá hafi Reagan verið mjög atkvæðamikill á þessu sviði á 8. áratugnum og til að mynda lækkað efsta þrepið úr 70% í 27%. Loks nefndi hann Bill Clinton, sem hafi gert NAFTA samninginn og minnkað umsvif ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu um 3%, sem sé meiri árangur á því sviði en aðrir forsetar geti státað af. Laffer sagði að bæði demókratar og repúblikanar hafi staðið sig vel og illa í stóli forseta. Þetta snerist ekki um stjórnmálaflokka heldur um það hvað menn gerðu.

Kaus Bill Clinton

Laffer upplýsti að hann hefði í tvígang kosið Clinton í forsetakosningum, enda hefði hann orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar George H. W. Bush hafi svikið loforðið sitt fræga um að hækka ekki skatta. Hann bætti því raunar við að hann hefði ekki miklar mætur á Clinton sem persónu, en hann hafi staðið sig vel sem forseti. Erindið var bæði afar líflegt og fróðlegt og þess má geta að Viðskiptablaðið mun birta ýtarlegt viðtal við Laffer í næstu viku.