*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 19. mars 2017 18:02

Áhyggjur í áratug

Rúna Dögg Cortez hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn Brandenburg þar sem hún starfar.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Rúna Dögg Cortez sem starfar sem stafrænn stjórnandi og viðskiptastjóri hjá Brandenburg hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins með þeim Ragnari Gunnarssyni framkvæmdastjóra og Herði Lárussyni teiknistofustjóra.

Rúna er með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og stefndi erlendis í nám.

„Ég ætlaði mér alveg frá því að ég var unglingur að verða klínískur sálfræðingur, en síðan hefur mér alltaf þótt auglýsingar vera svo skemmtilegar og áhugavert hvernig þær tengjast inn á félagslega sálfræði,“ segir Rúna um hvernig hún endaði í þessu starfi.

„Þannig að þegar ég útskrifaðist þá spurði ég einn kennarann minn hvort hann vissi um eitthvað skemmtilegt mastersnám í auglýsingasálfræði úti í heimi.

Hann hvatti mig hins vegar til að sækja um á einhverri stofu hérna heima og sjá fyrst til hvernig mér litist á það og þá fékk ég starf sem birtingarstjóri á Fíton auglýsingastofu, en í því starfi nýtist tölfræðiþekkingin úr sálfræðinni vel.“

Eftir töluverðar sameiningar og aðrar sviptingar á þessum markaði endaði hún sem framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar en flutti sig síðan yfir á Brandenburg eftir fæðingarorlof, en eigendur þess störfuðu margir með henni á Fíton á sínum tíma.

„Nú á ég þrjú börn sem eru á aldrinum fjögurra ára og upp í 21 árs og einn kött, en ljósmyndun er mitt helsta áhugamál,“ segir Rúna sem er gift Guðna Rafni Gunnarssyni, en aðspurð segist hún ekki taka mikið landslagsmyndir.

„Ég tek meira svona brot úr landslagi og umhverfi, og síðan myndir af fólki, fjölskyldu og vinum. Ég hef líka tekið myndir í jólakort vina og ættingja og síðan gerum við ein vinkona mín alltaf jólakort sem við seljum í kringum jólin.“

Rúna og vinkona hennar hafa lengi haft bók í maganum sem hún vonast til að fari að verða að veruleika.

„Hún er samblanda af ljósmyndum og viðtölum, en við höfum verið að vinna að henni í tíu ár, enda báðar mjög uppteknar, en við ætlum að gefa hana út á næsta ári,“ segir Rúna sem vill þó ekki gefa upp innihaldið.

„Við höfum haft áhyggjur af því að einhver komi fram me ð okkar hugmynd í þessi tíu ár.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is