Isavia birti fyrir helgi nýja og uppfærða farþegaspá fyrir árið 2019 sem var umtalsvert svartsýnni en þær hagspár sem hafa birst eftir að Wow er varð gjaldþrota undir lok síðastliðins marsmánaðar. Spáin hljóðar upp á 16,5% samdrátt í fjölda erlendra ferðamanna til landsins en til samanburðar er reiknað með 10% samdrætti í hagspá Seðlabanka Íslands.

Áður en spá Isavia var birt höfðu hagsmunasamtök ferðaþjónstunnar viðrað áhyggjur sínar um að ferðamönnum muni fækka meira og að áhrifin á hagvöxt verði meiri og langvinnari en vonir stóðu til um. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri taldi í sjónvarpsfrétt Rúv fyrr í vikunni að samdráttur í ferðaþjónustu á þessu ári verði um fimmtán til tuttugu prósent. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði á sama miðli einnig sjá vísbendingar um að samdrátturinn í greininni á þessu ári yrði meiri en 14% eins og Samtökin höfðu fyrst spáð.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir með Skarphéðni og Bjarnheiði, en bætir við að einnig séu merki um að fækkunin kunni að vara lengur en síðustu hagspár gera ráð fyrir.

„Allar spárnar frá hinu opinbera og  flestra spár einkaaðila telja að hér sé á ferðinni óvæntur og snöggur framboðsskellur og önnur flugfélög verði fljót að fylla upp í skarðið sem Wow skildi eftir sig. Við erum ekki eins sannfærð um að þetta sé raunin og sjáum vísbendingar um að fækkunin verði meiri og muni dragast á langinn í upplýsingum frá okkar aðildarfélögum. Og við sjáum engin merki um þann snöggan viðsnúning sem spárnar reikna með. Vorið var erfitt, sér í lagi kom apríl illa út og þótt maí hafi verið skárri var hann undir væntingum. Staðan fyrir sumarið er að vísu þokkaleg miðað við allt og af þeim sökum höfum við ekki horfið frá upphaflegri spá okkar um 14% samdrátt.

Mestar áhyggjur höfum við af haustinu en þar er staða bókana mjög léleg. Þá hafa síðustu fregnir verið þvert á spár um að önnur flugfélög muni taka upp slakann í framboðinu. Delta Airlines hafa tilkynnt að vetraráætlun félagsins til landsins verði hætt og Easyjet hefur greint frá umtalsverðri fækkun ferða í sínum áætlunum til Keflavíkur,“ segir Jóhannes Þór.

Icelandair ljósi punktur

Elvar Ingi Möller er sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka sem var fyrst til að birta hagspá eftir fall Wow. Spáin er jafnframt sú sem reiknar með mestri fækkun ferðamanna í ár eða 16%.

„Hvað sumarið varðar þá þykja okkur frekar vera vísbendingar  um að við höfum verið lítið eitt of varfærin í okkar spá. Mestu munar um hve sveigjanlegt leiðakerfi Icelandair hefur reynst, en félagið virðist hafa ansi mikla stjórn á farþegaskiptingunni. Tilkynning félagsins um 30% betri bókunarstöðu á markaði til Íslands fyrir háannatímann en í fyrra er til marks um þetta. Til lengri tíma litið erum við enn þeirrar skoðunar að breyttar aðstæður í alþjóðlegu rekstrarumhverfi flugfélaga skapi óvissu um hvort önnur félög komi til með fylla upp í framboðsskarðið sem Wow skildi eftir sig. Okkar spár gera enda ráð fyrir að viðsnúningurinn verði nokkuð hægari en í spám annarra, sem birst hafa á undanförnum vikum,“ segir Elvar Ingi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .