Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan bin Salman kynnti fyrst útboðshugmyndina fyrir nær fimm árum við miklar og góðar undirtektir fjölmiðla, fjárfesta og alþjóðlegra stofnana. Hins vegar hefur ýmislegt í atburðarásinni á þessum fjórum árum varpað skugga á bæði prinsinn og fyrirtækið.

Ein af röksemdum Salmans fyrir því að setja Aramco á markað var að skráningunni myndi fylgja skyldur um aukna upplýsingagjöf sem myndi leiða til aukins aðhalds og gagnsæis í rekstri fyrirtækisins. Það myndi aftur laða að erlenda fjárfesta til lands og vera til marks um vilja arabískra ráðamanna um að opna landið meira fyrir umheiminum.

Finacial Times segir þó skráninguna vera pyrrhosarsigur sem krónprinsinn hafi náð fram með þvingunum og óeðlilegum afskiptum. Aramco hafi til þessa verið einna best rekna stofnun konungsríkisins en afskipti stjórnvalda af undirbúningi skráningarinnar hafi keyrt um þverbak. Krónprinsinn og ráðgjafar hans hafi við hvert tækifæri reynt að hafa áhrif á verðmat félagsins fyrir skráninguna í stað þess að láta markaðinn um verðmyndunina.

Alþjóðlegum bönkum á borð við JPMorgan Chase og Morgan Stanley, sem höfðu veitt konungsdæminu ráðgjöf fyrir útboðið í von um ríflega þóknun við sölu bréfanna, var ýtt til hliðar á síðustu metrunum og í staðinn var innlendum verðbréfamiðlurum gert að selja bréfin innanlands.

Mikill þrýstingur hafi verið settur á auðugar fjölskyldur konungsdæmisins að taka þátt í útboðinu og bönkum gert að lána smærri fjárfestum til kaupa á hlutabréfum félagsins. Þá hafi fjárfestingasjóðir í konungsríkinu og bandalagsþjóðum, eins og Abú Dabí og Kúveit, verið beðnir um að stækka fjárfestingar sínar eftir að ljóst var að félagið yrði skráð innanlands en ekki á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði eins og til stóð í upphafi.

Abú Dabí hafði tilkynnt opinberlega að þjóðarsjóður ríkisins ætlaði að kaupa hluti fyrir 1,5 milljarða dollara en stuttu fyrir útboðið stækkaði sjóðurinn stöðutöku sína upp í fimm milljarða dollara, að því er heimildir Financial Times herma.

Skuggahliðar umbótaprinsins

Þegar krónprins Sádi-Arabíu, Múhameð bin Salman, kynnti fyrst áætlun sína um skráningu Aramco á hlutabréfamarkað var hann í miklu uppáhaldi á Vesturlöndum þar sem hann var álitinn boðberi nýrra tíma í Miðausturlöndum. Ekki aðeins í augum fjárfesta sem sáu hagnaðartækifæri í stefnu prinsins um að opna landið fyrir erlendu fjármagni heldur bar fólk almennt von um að bin Salman myndi færa Sádi-Arabíu í átt til meira frjálslyndis og jafnréttis.

Þessar vonir voru ekki úr lausu lofti gripnar því vissulega hefur bin Salman staðið fyrir miklum umbótum á sviði mannréttinda frá því að hann komst til valda árið 2018. Sumarið 2018 felldi hann til dæmis úr gildi lög sem bönnuðu konum að keyra bíl og dró verulega úr valdheimildum trúarlögreglunnar til að hafa afskipti af borgurum landsins, sér í lagi konum. Fyrir hans tilstuðlan hefur ferðamönnum í fyrsta sinn verið gert kleift að heimsækja landið með útgáfu sérstaks ferðamannavísa sem auðvelt er að sækja um á netinu. Sömuleiðis hefur hann opnað landið mun meira fyrir fjárfestingum erlendra aðila og lagt sig fram við að sannfæra fjárfesta um ágæti innviða og áreiðanleika stofnana landsins.

Þessar mikilvægu umbætur hafa þó ekki dugað til að vega á móti afar umdeildum ákvörðunum krónprinsins þannig að þrátt fyrir allt er vonarsól hans í augum Vesturlanda gott sem gengin til viðar. Múhameð bin Salman er sagður vera aðalarkitektinn á bak við átök Sádi-Arabíu við Jemen, en talið er að 50.000 börn hafi látið lífið árið 2017 vegna hungursneyðar sem skapaðist í kjölfar þess að sádíski her lokaði Jemen fyrir viðskiptum við umheiminn.

Breska blaðið Guardian telur að samtals hafi allt að 13 milljónir manna hafi látið lífið í hungursneyðinni. Spjótin beindust strax að bin Salman þegar blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hvarf haustið 2018 eftir að hann gekk inn í sendráð Sádi-Arabíu í Istanbul. Samkvæmt heimildum tyrknesku leyniþjónustunnar sætti Khashoggi pyntingum í sendiráðinu áður en hann var myrtur á grimmilegan hátt. Bin Salman hefur neitað eiga aðild að hvarfi Khashoggi en bandaríska leyniþjónustan telur fullsannað að hann hafi fyrirskipað morðið.

Að samanlögðu hafa þessar skuggahliðar prinsins vakið upp spurningar um stöðu erlendra fjárfesta í Aramco ef skerst í odda milli Sádi-Arabíu við umheiminn. Ef prinsinn virðir mannréttindi sinna eigin þegna ekki meira en raun ber vitni er hann þá líklegur til þess að virða eignarrétt erlendra fjárfesta?

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér