Í kjölfar fregnar um bága fjárhagsstöðu fasteignalánasóðanna Freddie Mac og Fannie Mae, hafa vaknað áhyggjur um hvort aðrar fjármálastofnanir muni riða falls, að því er sjóðstjórinn Daniel Morgan hjá Synovus Securities' trust unit segir við Dow Jones fréttaveituna.

Hlutabréfamarkaðir tóku fagnandi tíðum um að bandarísk stjórnvöld köstuðu líflínu til Freddie Mac og Fannie Mae og hækkuðu. Í dag er annað upp á teningnum og helstu hlutabréfamarkaðir eru rauðir.

Christian Svendsen hjá Saxo Bank segir við Dow Jones að lækkunin í dag bendi til að fjárfesta telji að tilkynningin um björgunina breyti litlu um undirstöðurnar (e. fundamentals).

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,6% það sem af er degi og er 4.162 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Litið til hinna Norðurlandana hefur danska vísitalan OMXC hefur lækkað um 2,6%, norska vísitalan OBX hefur lækkað um 2,7% og sænska vísitalan OMXS hefur lækkað um 2,2%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir að það verður ekki sagt að björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda á fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac séu óumdeildar. Um er að ræða meiriháttar aðgerð sem felur í sér að stjórnvöld fái heimild frá þinginu til ótakmarkaðra kaupa hlutabréfa sjóðanna, en þeir fá jafnframt aðgang að lánveitingum bandaríska seðlabankans auk þess sem fjármálaráðuneyti landsins fær heimild til þess að auka lánalínur til sjóðanna. Sem stendur er sú upphæð 2,25 milljarðar Bandaríkjadala á hvorn sjóð.