Það kom í ljós í síðasta mánuði að þrír verðbréfamiðlarar norræna fjárfestingabankans Carnegie gáfu upp meiri hagnað af verðbréfaviðskiptum sínum en efni stóðu til á árunum 2005 til 2007, en á tímabilinum var uppgefinn hagnaður af viðskiptum þeirra 5,7 milljörðum króna hærri en raun var. Þetta varð til þess að Carnegie þurfti að viðurkenna að hafa ofáætlað hagnað sinn um tvo milljarða króna. Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur af þessu tilefni skrifað bankanum formlegt bréf þar sem farið er fram á útskýringar á því hvernig þetta gat gerst og að tryggt sé að það muni ekki gerast aftur. Slíkar bréfaskriftir samræmast ekki hefðbundnum verkferlum og þykir undirstrika að ríkisstjórninni sé umhugað um tengsl sín við Carnegie í sambandi við einkavæðingarferli í Svíþjóð sem nú stendur yfir.

Carnegie er einn af níu fjárfestingarbönkum sem ríkisstjórnin hefur fengið til liðs við sig til ráðgjafar í einkavæðingarferlinu, en fyrir það mun Carnegie fá rausnarlega þóknun. Bankinn veitti aðstoð við sölu á 8% hlut í fjarskiptafyrirtækinu TeliaSonera og hefur verið skipaður ráðgjafi við sölu á 6,6% hlut ríkisins í OMX kauphöllinni. En sem kunnugt er hefur Nasdaq gert yfirtökuboð í kauphöllina.

Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarferlinu, Karin Forseke, er fyrrverandi framkvæmdarstjóri Carnegie, en hún lét af störfum í mars á síðasta ári, sem þýðir að hún var við völd hluta þess tíma þegar brotin áttu sér stað. "Þetta er ömurlegt mál, bæði fyrir fyrirtækið og markaðinn, þetta skemmir fyrir öllum," segir Forseke, sem hefur boðist til að aðstoða við rannsóknina. Talsmenn bankans segja að málið sé nú efst í forgangsröðinni og að sérstök nefnd hafi verið sett til að fara yfir málið. Þá hafa átta helstu ráðamenn bankans gefið frá sér bónusgreiðslur ársins vegna málsins, en með því vonast þeir til að tryggja að starfsmenn yfirgefi ekki bankann.

Miðlararnir þrír starfa ekki lengur hjá bankanum og hefur Carnegie lagt fram kæru á hendur þeim til lögreglu fyrir fjársvik. Fjármálaeftirlit Svíþjóðar hefur nú málið til rannsóknar og rannsakar meðal annars hvort brot hafi átt sér stað í innra öryggi fyrirtækisins. Ef fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið, getur það þýtt að bankanum verði óheimilt að taka frekar þátt í einkavæðingarferlinu.