Tryggingarisinn American Intarnational Group (AIG) segist hafa hætt við milljóna dala starfslokasamning fyrir fjármálastjóra sinn. AIG hyggst einnig sýna fullan samstarfsvilja með New York ríki í endurskoðun á öðrum launasamningum stjórnenda.

Yfirlýsing þessa efnis var gefin út sameiginlega af saksóknara New York, Andrew Cuomo, og AIG sl. fimmtudag. Starfslokasamningur fjármálastjórans, Steven Bensingar, var metinn á um 10 milljónir Bandaríkjadala. Ekki liggur þó fyrir hve mikið af honum hafði þegar verið greitt út.

Cuomo rannsakar nú hvort einhverjir af starfslokasamningum AIG kunna að brjóta í bága við lög. AIG hefur lofað fullum samstarfsvilja við að uppræta ólögmæt útgjöld.

Samkvæmt lögum New York ríkis hefur saksóknari ríkisins vald til að krefjast endurgreiðslu á óréttmætum bónusgreiðslum frá fyrirtæki sem skortir fjármagn.

Saksóknarinn vildi ekki segja til um hversu margir samningar væru til skoðunar eða hvort lögbrot hefðu verið framin, en sagði þó að „almenn skynsemi“ segði sér að einhverjar bónusgreiðslur hefðu verið vafasamar.

„Þú ert með stjórnendur sem fá milljónir dala fyrir góða frammistöðu. Hvernig geturu verðlaunað einhvern fyrir góða frammistöðu, þegar frammistaða þeirra er allt annað en góð?“ spurði saksóknarinn.

MSNBC greindi frá þessu.