Bandaríska tryggingarfélagið AIG, eitt stærsta tryggingarfélag í heimi, hefur samþykkt að greiða 725 milljóna dollara, jafngildi um 100 milljarða króna, sekt og ljúka þar með málum sem fjármálaeftirlitið var með til rannsóknar. Sannað þótti að AIG hefði brotið lög á árunum 1999 til og með 2005, einkum gegn viðskiptavinum sínum í Ohio en þrír eftirlaunasjóðir í því ríki voru lengst komnir með málarekstur gegn fyrirtækinu. Einkum snérust brot AIG um markaðsmisnotkun og óeðlileg afleiðuviðskipti, þar sem m.a. var veðjað á að viðskiptavinir félagsins gætu ekki staðið við sitt.

Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem stór fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum ljúka málum með sektargreiðslum. Bandaríski bankinn Goldman Sachs gerði það á dögunum einnig þar sem sannað þótti að bankinn hefði lánað einstaklingum fé til kaupa á húsnæði en á sama tíma á veðjað á að fólkið gæti ekki staðið við sitt. Á þessu hagnaðist bankinn um tugi milljarða, einkum á árunum 2006 og 2007.