Bandaríski trygginga- og fjárfestingarisinn AIG sagðist í dag ætla að einbeita sér að tryggingastarfsemi sinni og selja aðra þætti úr samstæðunni. AIG hefur tapað feikilegum fjárhæðum á stöðum í undirmálslánum og fékk 85 milljarða dollara neyðarlán frá bandarískum yfirvöldum. Reuters segir frá þessu í kvöld.

Gengi bréfa félagsins hækkuðu um 24% í dag en gáfu síðan talsvert eftir. Forsvarsmenn fyrirtækisins ætla nú að halda eftir fasteigna- og líftryggingahluta félagsins og erlendri tryggingastarfsemi. Tekjur af þessum starfsþáttum námu um 40 milljörðum dollara á síðasta ári. „Allt sem ekki fellur undir þessa þætti er til sölu,“ sagði forstjóri AIG á símafundi með greiningaraðilum.

Forstjórinn, Edward Liddy, sagðist ekki reikna með að brunaútsala myndi eiga sér stað, og bætti því við að væntanlegir og mögulegir kaupendur að eignum AIG mættu reikna með að einhverjar skuldir fylgdu þeim. „Við erum með fjölda áhugasamra kaupenda,“ sagði Liddy.

Meðal þeirra eigna sem AIG gæti selt væri flugvélaleigustarfsemi, og hlutur í endurtryggingafélaginu Transatlantic Holdings.