Gengi bréfa bandaríska tryggingarisans AIG hækkaði um 27% í dag. Það gerðist í kjölfar þess að fregnir bárust um að nokkrir hluthafa félagsins hygðust reyna að finna leið til að bjarga fyrirtækinu án aðstoðar Seðlabanka Bandaríkjanna. Reuters segir frá þessu.

Seðlabankinn veitti AIG 85 milljarða dollara neyðarlán á dögunum til að sleppa frá gjaldþroti. Félagið tapaði gríðarlegum fjárhæðum á stöðum í fasteignatryggðum skuldabréfavafningum.

Eftir yfirtöku Seðlabankans eignaðist hann 80% hlutafjár í félaginu. Nokkrir stærri hluthafa leita nú leiða til að selja einhverjar eigna AIG til að borga neyðarlánið til baka, og halda félaginu þannig sjálfstæðu.