Stjórnarflokkar nýrrar ríkisstjórnar eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hyggjast fela Evrópunefnd að meta stöðu og horfur Íslands gagnvart ESB.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar.

Þar segir, í kafla um alþjóðasamninga og Evrópusamstarf, að Evrópunefnd verði falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin eigi a ðskili skýrslu 15. apríl 2009 „sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum."

Síðan segir: „Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Alþjóðlegir sérfræðingar veiti aðstoð vegna skulda þjóðarbúsins

Þá segir í kaflanum að alþjóðlegir sérfræðingar verði ráðnir til að veita aðstoð við samninga á alþjóðavettvangi í samráði við ríkisstjórn um skuldir þjóðarbúsins. „Þetta á við um alþjóðlega samninga vegna innstæðutrygginga, samskipti við erlenda kröfuhafa íslensku bankanna og ýmis álitaefni er tengjast endurreisn bankanna."