Fjármálaráðherrar aðildarríkja ESB og Seðlabankastjórar sömu ríkja funduðu nýverið í Slóveníu.

Meðal þess sem fram kom var að líta beri á nýlegar launahækkanir í Þýskalandi sem undantekningu, en almennt verði stjórnvöld, fyrirtæki og stéttarfélög á ESB-svæðinu að gæta að því að gera ekki samninga sem ýtt geti undir verðbólgu.

Á mánudaginn voru undirritaðir samningar í Þýskalandi sem tryggja 1,3 milljón ríkisstarfsmanna 8% launahækkun á næstu 2 árum. Fyrr á árinu fengu lestarstjórar 11% hækkun og starfsmenn stáliðnaðarins 5,2% þar í landi.

Jean-Claude Trichet, forseti Evrópska Seðlabankans, sagði „Við mælu með að allir sýni hófsemi, án undantekninga. Lönd eða samningsaðilar sem vilja semja í líkingu við þýsku samningana eru að misskilja hlutina mikið, því það er ekkert annað land í sömu stöðu og Þýskaland.“

Framkvæmdastjórn Evrópu spáði því í febrúar að verðbólga á árinu 2008 verði 2,6% innan ESB. Verðbólga á Evrusvæðinu hefur aldrei mælst meiri en í mars, eins og greint hefur verið frá áður.

Financial Times hefur eftir Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, að það sé mjög mikilvægt að halda verðbólgu niðri, því að hún komi óhjákvæmilega verst niður á þeim sem hafa minna milli handanna en aðrir. „Fyrir milljónamæring skiptir hækkun matarverðs ekki máli. Það skiptir ekki máli fyrir mig persónulega þó að tómatar verði dýrari. En fólk sem þénar 300-600 evrur hefur ekki efni á að takast á við verðbólguna.“