Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, mun ganga á fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins í næstu viku, en hann hefur boðað að Frakkland muni ekki ná markmiðum um fjárhagsstöðuleika sem samþykkt hafa verið. Portúgalar vara við því að viðbrögðin verði hörð.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti tilkynnti fyrir skömmu að tveggja ára töf yrði á því að áætlun sem miðar að því að rétta halla ríkissjóðs verði sett í gang, en Frakkland hafði heitið Evrópusambandinu því að það markmið myndi nást fyrir árið 2010. Portúgal, sem hefur nýverið tekið við formennsku Evrópusambandsins, segir að fjármálaráðherrar Evrópusambandsins muni ekki taka létt á þessu máli.

Sarkozy hefur boðað til fundar með fjármálaráðherrum evruríkjanna til að ræða efnahagsáætlanir sínar á mánudaginn í næstu viku og segir fjármálaráðherra Portúgal, Fernando Teixeira dos Santos, að mikill þrýstingur verði settur á Frakkland þar. Fundarboðið þykir í hæsta máta óvenjulegt, þar sem æðstu ráðamenn aðildarríkjanna sækja ekki fundi fjármálaráðherra þeirra. Sarkozy heldur því fram að hrista þrufi upp í efnahag þjóðarinnar með skattalækkunum.

Stjórnmálalegt vandamál
Sarkozy mun væntanlega eiga von á hörðum viðbrögðum frá þýskum embættismönnum, en Þýskaland hefur lengi glímt við efnahagskreppu og er nú að stíga upp úr henni. Teixeira dos Santos segir að hann sé að reyna að senda út viðvörun um hvaða viðbragða gagnvart Frakklandi sé að vænta á fundinum í næstu viku.
Fyrir aðeins þremur mánuðum síðan samþykktu öll 27 aðildarríki Evrópusambandssins markmið um að rétta af halla ríkissjóða sinna fyrir 2010 og óttast Teixeira dos Santos að samkomulagið glati gildi gangi einhver aðildarríkjanna á bak orða sinna. "Ef þjóðir vilja brjóta loforð sem gefin hafa verið, verður það ekki lagalegt vandamál, heldur af stjórnmálalegt," segir Teixeira dos Santos.

Joaquin Almunia, framkvæmdarstjóri peningamála Evrópusambandsins, lýsti yfir miklum áhyggjum af efnahagsstefnu Ítalíu í síðustu viku, en Ítalir hafa seinkað markmiðum sem samþykkt voru að aðildarríkjunum um eitt ár. Almunia hefur einnig miklar áhyggjur af skuldastöðu ítalska ríkisins, sem eru meira en 100% meiri en þjóðarframleiðslan.

Mistök tíunda áratugarins endurtekin
Hann óttast að Evrópa sé nú að endurtaka mistök tíunda áratugarins þegar aðildarríkin beittu ekki aðhaldi á uppsveiflutímabili og lentu svo í efnahagskreppu sem hafi eyðilagt upphaflegt stöðugleikasamkomulag Evrópusambandsins. Hið endurskoðaða samkomulag leggur áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og að ríkisstjórnir aðildarríkja haldi að sér höndum á góðæristímum svo skilið sé eftir sé svigrúm þegar næstu niðursveiflu ber upp á.

Það að Frakkland gangi nú á bak orða sinna gagnvart aðildarríkjum Evrópusambandsins kann að koma mörgum á óvart, en Sarkozy hefur ítrekað lýst því yfir að auka þurfi samstarf evruríkjanna og efnahagsstjórn þeirra.