Air Atlanta hefur nýverið undirritað þrjá samninga um fraktflug á Boeing 747 vélum félagsins. Áætlaðar tekjur félagsins vegna samninganna eru rúmlega 11 milljarðar króna eða nærri 165 milljónir dollara. Air Atlanta hefur framlengt samning við Malaysian Cargo um eitt ár á 6 vélum félagsins og við Cargolux Airlines í eitt ár á 2 vélum. Þá hefur Air Atlanta samið við Cathy Pacific Cargo til 18 mánaða um eina flugvél og er það önnur Boeing 747 vélin sem það félag leigir af Air Atlanta.

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Hafþóri Hafsteinssyni, forstjóra Air Atlanta, að þessir samningar séu allir viðbót við núverandi samninga hjá þessum aðilum sem sýnir og sannar traust þeirra á þjónustu Air Atlanta.

Air Atlanta leigir flugvélar ásamt áhöfn og annast viðhald og tryggingar. Flugfélagið er stærst sinnar tegundar í heiminum, sama hvort miðað er við stærð flugflota eða fjölda útleigðra tíma.

Air Atlanta er flugrekstrarfélag sem frá og með næstu áramótum sameinast Íslandsflugi og verður dótturfélag eignarhaldsfyrirtækisins Avion Group. Starfsmenn Avion verða 3,200. Boeing og Airbus flugflotinn mun telja samtals 63 vélar. Starfsstöðvar Avion Group verða yfir 20 í öllum byggðum heimsálfum veraldar.