Air Atlanta Icelandic hefur gengið frá samningi um leigu fraktflugvélar til Yangtze River Express í Kína til 12 mánaða. Þetta er fyrsta skipti sem Air Atlanta Icelandic leigir flugvél til meginlands Kína.

Yangtze River Express er eitt af þremur fraktflugfélögum Kína og er staðsett í Sjanghæ. Flugfélagið sinnir einnig hraðflutningum fyrir UPS segir í frétt Avion Group.

Samið hefur verið um leigu á einni Boeing 747-200SF sem verður afhent Yangtze River Express þann 24. júní 2006.

Yangtze River Express er að hluta í eigu China Airlines sem er eitt stærsta fragtflugfélag í heimi. Air Atlanta Icelandic telur að þessi samningur opni félaginu dyr að mikilvægasta og mest vaxandi markaði í heimi.