Air Atlanta Icelandic hefur gengið frá samningi um leigu þriggja fraktflugvéla til Etihad Airways. Um er að ræða framlengingu á leigu á tveimur vélum sem hafa verið í þjónustu hjá Etihad Airways og leigu á einni vél til viðbótar.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að samningurinn nær til næstu þriggja ára og er heildarvirði hans um 80 milljónir Bandaríkjadala.

Vélarnar þrjár sem verða leigðar til Etihad Airways eru af gerðinni Airbus 300-600RF og verður þriðja vélin afhent um miðan júní.

Etihad Airways er farþega- og fragtflugfélag frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Félagið var nýlega valið besta fragtflugfélagið í Mið Austurlöndum og á Indlandi.

Etihad Airways notar eingöngu vélar frá Air Atlanta Icelandic í fragtflutningum og stefnir félagið að því að auka fragtflutninga sína mikið í framtíðinni.