Flugfélagið Air Austral, sem staðsett er á eyjunni Reunion í Indlandshafi,  hyggst nú kaupa tvær risaþotur af gerðinni Airbus A 380 sem notaðar verða á flugleiðinni milli Parísar og Reunion.

Það væri ekki frásögu færandi nema þetta eru fyrstu pantanirnar á hinni tveggja hæða A380 þar sem aðeins verður ein gerð farrýmis í flugvélunum .

Þannig verður aðeins gert ráð fyrir svokölluðu economy farrými, sem er venjulegt farrými á báðum hæðum vélarinnar sem þýðir að gert er ráð fyrir að vélarnar taki um 840 farþega.

Nú þegar hafa 23 A380 vélar verið afhentar en þær tvær sem hér um ræðir verða afhentar árið 2014. Sem fyrr segir eru þetta fyrstu vélarnar sem eingöngu munu vera með venjulegt farrými en með fullri sætanýtingu verður um að ræða fjölmennustu flug í sögunni þegar af verður.

A380 vélin getur í raun tekið fleiri farþega en með því að fullnýta það pláss sem er til staðar er hægt að koma um 1.000 manns í sæti. Hins vegar hafa öryggisprófanir sýnt fram á að hægt er að rýma vélina á 90 sekúndum með 853 farþegum en alls eru 16 útgönguleiðir í vélinni.

Þær vélar sem nú eru í notkun hafa allar mismunandi farrými. Í flestum tilvikum er efri hæð vélarinnar samansett af mismunandi viðskipta- og lúxusfarrýmum en neðri hæðin af venjulegu farrými.