Air Berlin Plc, sem er þriðja stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, ætlar að fara í samkeppni við easyJet og RyanAir og hyggst bjóða út ný hlutabréf til almennings til þess að fjármagna stækkun félagsins, segir greiningardeild Landsbankans.

Joachim Hunold, forstjóri Air Berlin, býst við að hlutur lágfargjaldaflugfélaga á Evrópumarkaði muni tvöfaldast á næstu árum.

Ekki er enn víst hvenær hlutafjárútboðið fer fram eða hvert umfang þess en haft er eftir Joachim Hunold að til þess að halda samkeppnishæfni á ört stækkandi markaði í Evrópu þurfi flugfélagið að hafa nægjanlegt fjármagn.

Lágfargjaldaflugfélög hafa verið í mikilli sókn í Þýskalandi á síðustu árum og hefur markaðshlutdeild þeirra aukist úr 1% í 21% á fimm árum.

Flugfélagið, sem flytur nú næst flesta farþega í Þýskalandi á eftir Lufthansa, byrjaði að fljúga frá Vestur Berlín árið 1978 á einni Boeing 707 flugvél.

Í dag samanstendur flugvélafloti Air Berlin af 54 flugvélum og á von á að fá 6 nýjar A320 flugvélar á þessu ári, en samtals á flugfélagið eftir að fá 60 nýjar vélar fyrir 2011.