Air Canada hóf í vikunni á ný sumarflug sitt milli Keflavíkurflugvallar annars vegar og Toronto og Montreal hins vegar. Flogið var til Montreal í gær og Toronto í morgun, en flugfélagið flaug síðast til Íslands árið 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Flogið verður fjórum sinnum í viku til og frá Toronto og þrisvar sinnum í viku til og frá Montreal. Flogið verður milli þessara áfangastaða fram í byrjun október.

Þannig verður flogið til Toronto á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum, en til Montreal á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.

Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia:

„Við bjóðum Air Canada innilega velkomið aftur til Keflavíkurflugvallar eftir tvö erfið farsóttarár. Air Canada er mikils metinn samstarfsaðili og við hlökkum til að sjá okkar mikilvæga samband halda áfram að þróast á komandi árum. Endurkoma Air Canada er skýrt merki þess að Ísland er spennandi og vinsæll áfangastaður.“

Marc Sam, umsjónarmaður Íslandsflugs Air Canada:

„Þetta eru mjög spennandi fréttir fyrir viðskiptavini okkar á Íslandi sem geta nú byrjað að skipuleggja sína næstu ferð til að enduruppgötva Kanada. Beint flug okkar frá Keflavík til Toronto og Montreal mun gera viðskiptavinum okkar á Íslandi kleift að komast beint til Kanada og þaðan áfram til áfangastaða í bæði Norður- og Suður-Ameríku. Við hlökkum til að bjóða viðskiptavini okkar velkomna um borð.“