Flugfélagið Air France-KLM, sem er stærsta flugfélag Evrópu og eitt það stærsta í heimi, mun gera gagngerar breytingar á innréttingum Airbus A319 og A320 flugvéla sinna á þessu og næsta ári.

Ný og hágæða leðursæti verða sett í allar Airbus vélar flugfélasins sem munu verða bæði í Business og Economy farrýmum vélanna. Hægt verður að halla sætunum um 20 gráður og nýir armpúðar verða settir á hvert sæti. Þá verða fatasnagar á hverju sætisbaki.

Allar A319 vélar félagsins verða innréttaðar með þessum nýju sætum frá og með apríl en A320 vélarnar verða innréttaðar á fyrri helmingi næsta árs. Nýju sætin eru 2 kg léttari en sætin sem voru fyrir og munu því minnka eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun flugvélanna.